Menningarnæturpottur Landsbankans | Reykjavíkurborg

Menningarnæturpottur Landsbankans

miðvikudagur, 9. maí 2018

Menningarnótt verður haldin þann 18. ágúst næstkomandi og auglýst er eftir áhugasömum og frumlegum hugmyndasmiðum til þess að fylla inn í viðburðalandslagið.

  • DJ Margeir sá um stuðið á Klapparstíg á Menningarnótt 2017
    DJ Margeir sá um stuðið á Klapparstíg á Menningarnótt 2017 (Ljósmynd Ragnar Th. Sigurðsson)

 Styrkjum á bilinu 100.000–500.000 kr. verður úthlutað til einstaklinga og hópa úr Menningarnæturpotti Landsbankans. Hægt er að sækja um á menningarnott.is til 24. maí. 

Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum eða söfnum, kirkjum og kaffihúsum, verslunum og fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum.

Menningarnæturpottur er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Landsbankans, sem hefur verið máttarstólpi hátíðarinnar frá upphafi. Allur fjárstuðningur bankans rennur til verkefna sem unnin eru á Menningarnótt.