Meirihluti hlynntur hóflegri gjaldtöku fyrir notkun nagladekkja

Samgöngur Skipulagsmál

""

Meirihluti svarenda er hlynntur gjaldtöku á nagladekk í könnun sem gerð var núna í maí. Á höfuðborgarsvæðinu er skýr meirihluti fyrir gjaldtöku hjá þeim sem taka afstöðu eða 46% með en 38% á móti. Greina má með afgerandi hætti að unga fólkið er hlynnt gjaldtöku. Hlutfall negldra dekkja var talið þriðjudaginn 16. apríl og reyndust 31% ökutækja vera á negldum dekkjum.

Dagana 3. til 13. maí sl. vann Gallup skoðanakönnun að beiðni Samgöngufélagsins þar sem spurt var: 

  • Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú hóflegri gjaldtöku fyrir notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu?

Niðurstöðurnar eru allrar athygli verðar því mögulega fá sveitarfélög heimild í nýjum umferðarlögum til að setja gjald á nagladekk. Í drögum að frumvarpinu var gert ráð fyrir heimild til handa sveitarfélögunum að ákveða hvort þau leggðu gjald á eigendur ökutækja sem búin væru nagladekkjum, en ákvæði um það var numið úr frumvarpinu sem lagt var fyrir þingið. Ef til vill getur það dottið inn aftur.

Af þeim 818 sem tóku afstöðu í þessari könnun voru 42% hlynnt heimild til gjaldtöku en 40% andvíg en 18,2% þátttakenda var hvorki með eða móti. Skipting eftir búsetu var þannig að af skráðum íbúum í Reykjavík voru 44% hlynntir en 39% andvígir. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur voru 48%
hlynntir en 37% andvígir. Utan höfuðborgarsvæðisins voru 34% hlynntir en 44% andvígir.

Gjaldtaka í Reykjavík gæti haft góð áhrif út frá heilsufarslegu sjónarmiði og einnig út frá viðhaldi gatna en fækkun bíla á nagladekkjum er mikilvægur þáttur til fyrirbyggja svifryk. Nagladekk spæna upp malbiki a.m.k. þrjátíu sinnum hraðar en önnur dekk.

Hlutfall negldra dekkja í apríl

Hlutfall negldra dekkja var talið þriðjudaginn 16. apríl og skiptist það þannig að 31% ökutækja var á negldum dekkjum og 69% var á öðrum dekkjum. Hlutfall negldra dekkja hefur því lækkað nokkuð frá talningu í mars en þá var það 46%.

Árið 2018 var einnig á svipuðum tíma og var þá hlutfall þeirra ökutækja sem voru á negldum dekkjum töluvert minna, eða 22,5%.

Hlutfall negldra dekkja er töluvert hærra í ár en í fyrra en svipað og síðastliðin ár, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Tenglar

Könnun

Frumvarp

Talning