Meðferðarkjarni nýja Landspítalans í fullnaðarhönnun

Skipulagsmál

""

Í dag var skrifað undir samning um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna nýja Landspítalans. Þetta er langstærsta byggingin sem mun rísa í tengslum við uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Það er Corpus hópurinn sem mun hanna bygginguna. Framkvæmdir við sjúkrahótel á lóð Landspítalans munu hefjast í nóvember.

Það var Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sem skrifaði undir samninginn við Corpus hópinn fyrir hönd ríkisins. Samningurinn er um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut en Corpus hópurinn var lægstbjóðandi í verkið í útboði.

Samninginn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Grímur M. Jónasson frá VSÓ ráðgjöf fyrir hönd Corpus hópsins. Dagur B.Eggertsson borgarstjóri og Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans vottuðu samninginn.

Fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans mun byggja á forhönnun verksins sem þegar er lokið. Einnig hafa allar skipulagsáætlanir verið samþykktar vegna verkefnisins þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag lóðarinnar við Hringbraut.

Áætluð heildarstærð meðferðarkjarnans er um 58.500 fermetrar. Byggingin verður á sex hæðum neðan götu og fimm hæðum ofan götu. Hún mun rísa á lóð Landspítals við Hringbraut. Meðferðarkjarninn mun tengjast öðrum byggingum á Landspítalalóðinni.

Fjögur fyrirtæki standa að Corpus hópnum þ.e. Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar og VSÓ ráðgjöf.

Í þessari viku mun Nýr Landspítali bjóða út verkframkvæmd á sjúkrahóteli. Áætlað er að framkvæmdir hefjist við sjúkrahótelið í byrjun nóvember og mun það rísa á Hringbrautarlóðinni norðan kvennadeildar Landspítalans.