Mathöll opnar á Hlemmi í haust

Stjórnsýsla Umhverfi

""
Mathöll verður opnuð á Hlemmi í haust og í dag var skrifað undir samstarfssamning um rekstur hennar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að lifandi matarmarkaður á Hlemmi renni stoðum undir fjölbreyttara mannlíf og geri Hlemm að eftirsóknarverðum áfangastað.  Hlemmur verður áfram mikilvægur tengipunktur í leiðarkerfi Strætó og farþegar munu njóta bættrar þjónustu.  

Vilja þjónusta nágranna og laða að gesti

Haukur Már Gestsson og Bjarki Vigfússon framkvæmdastjórar mathallarinnar segja að Hlemmur - mathöll verði opin daglega og þar verði bæði hægt að kaupa matvörur og njóta veitinga á staðnum. „Markmið okkar er að skapa mathöll sem þjónustar íbúa nágrennisins og þá sem starfa í nágrenni Hlemms en líka allt höfuðborgarsvæðið og gesti miðborgarinnar,“ segir Bjarki.  Með Sjávarklasanum að uppbyggingunni á Hlemmi standa þeir Ólafur Örn Ólafsson, Þórir Bergsson og Leifur Welding.

Virðing við upphaflegt hlutverk hússins

Haukur segir að uppbygging Hlemms muni blása nýju lífi í þetta 38 ára gamla hús og með því að breyta því í mathöll fái það á ný tengingu við upphaflegt hlutverk sitt sem miðstöð verslunar. Biðstöð strætó verður áfram á Hlemmi og salerni hússins verða opin almenningi.
 
Deiliskipulag á Hlemmtorgi er í endurskoðun og stefnt er að því að stækka almenningsrými í kringum Hlemm í nýju skipulagi. „Torgið við Hlemm mun skapa möguleika á að halda skemmtilega útimatarmarkaði um helgar og á tyllidögum,“ segir Haukur.  Verkefnið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið, en sumarið 2015 auglýsti Reykjavíkurborg eftir rekstraraðila að matarmarkaði á Hlemmi. Borgarráð samþykkti í ágúst að velja Sjávarklasann til áframhaldandi viðræðna og síðan hefur verið unnið að þróun mathallarinnar. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í liðinni viku að verja rúmlega 107 milljónum króna í að breyta Hlemmi í mathöll. Tæpar 82 milljónir fara í breytingar, 18 milljónir í kostnað vegna djúpgáma en 7,2 milljónum verður varið í almennt viðhald á húsinu.  Framkvæmdir munu hefjast í apríl.
 
Húsið, sem er að mörgu leyti einstakt í byggingarsögu Reykjavíkur og minnisvarði um strauma og hugsun í arkitektúr á 8. áratugnum, fékk Menningarverðlaun DV árið 1979. Helga Gunnarsdóttir arkitekt, dóttir Gunnars Hanssonar arkitekts hússins, hefur teiknað breytingar á húsinu.  Með því að endurhanna húsið að innan sem mathöll þar sem verslun fer fram, taka filmur úr gluggum og hleypa birtu um það og opna það aftur að torginu og mannlífinu fyrir utan, er mikilvægri tengingu við upphaflegt hlutverk hússins náð og sterkustu einkennum þess gert hátt undir höfði. Við hönnun mathallar á Hlemmi hefur verið lögð rík áhersla á verndun allra helstu höfundareinkenna hússins.

Leita að samstarfsaðilum

Í mathöllinni á Hlemmi vilja aðstandendur hennar leggja sérstaka áherslu á matarupplifun, gæði vörunnar og fjölbreytni, þannig allir geti fengið eitthvað við sitt hæfi.  „Á Hlemmi verður úrval lítilla sælkeraverslana og veitingastaða. Þar gæti verið á boðstólnum allt frá nýbökuðu brauði, fersku kjöti, sjávarfangi og grænmeti yfir í kaffi, ljúffenga smárétti og framandi götumat.“ segir Haukur Már. Strax í þessari viku verður auglýst eftir rekstraraðilum. Hægt verður að fylgjast með framhaldinu á hlemmurmatholl.is og á Facebook-síðu Hlemms - mathallar.

Nánari upplýsingar: