Markaður, kaffihús og fiskabúr á Hlemmi

Á sýningunni HönnunarHlemmur sem Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stóð fyrir á Hlemmi í tengslum við HönnunarMars var meðal annars hægt að taka þátt í samráði um framtíð Hlemms. 

Miðstöð Strætó flyst á næstu árum frá Hlemmi yfir á umferðarmiðstöðina við Hringbraut (BSÍ) og því var spurningin um framtíð Hlemms borin upp.  Gestir gátu skrifað á hugmyndavegg og einnig merkt við þá starfsemi sem þeir vilja sjá í framtíðinni á Hlemmi. Þar sýndi sig mikill áhugi fyrir því að Hlemmur yrði kaffihús, torg eða markaður. „Það er spurning hvort hægt verði að slá þeim möguleikum saman í skemmtilegan Hlemm í framtíðinni“, segir Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og einn skipuleggjanda HönnunarHlemms.  „Ýmsar aðrar skemmtilegar hugmyndir litu einnig dagsins ljós en þær voru meðal annars  að setja fiskabúr í glerrými við innganga, halda hjólaskautadiskó á Hlemmi auk þess sem bent var á skort á klósettum“. Ferðamenn skildu einnig eftir skilaboð en Carl frá Englandi lýsti því að honum þætti Hlemmur frábær staður og að hann elskaði fólkið!  

Alls komu 126 hugmyndir frá gestum á vegginn og má skoða listann undir ítarefni hér fyrir neðan á síðunni. „Við tökum þetta samráðsferli alvarlega og viljum vinna áfram með þessar hugmyndir“, segir Valný Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri og verða tillögur lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar.