Margrét Lísa Steingrímsdóttir fær Fálkaorðuna

""

Margrét Lísa Steingrímsdóttir, forstöðumaður í Álfalandi, var sæmd riddarakrossi af forseta Íslands á Bessastöðum 17. júní.  Íslensku Fálkaorðuna fær hún fyrir störf í þágu fatlaðra barna og velferðar.  

Margrét Lísa hefur starfað að málefnum fatlaðs fólks síðan 1979 en hún hefur rekið Álfaland þar sem er skammtímavistun fyrir fötluð og langveik börn frá upphafi eða síðan 1987.

Markmiðið með dvöl í Álfalandi er að veita foreldrum og/eða forsjáraðilum fatlaðra og langveikra barna skammtímavistun til að létta á heimilum og gefa fólki kost á að komast í frí. Skammtímavistunin er um leið afþreying og tilbreyting fyrir börnin.

Reykjavíkurborg óskar Margréti Lísu hjartanlega til hamingju með verðskuldaðan heiður.