Margir taka þátt í að móta menntastefnu | Reykjavíkurborg

Margir taka þátt í að móta menntastefnu

fimmtudagur, 30. nóvember 2017

Á tíunda þúsund borgarbúar hafa heimsótt samráðssíðu um nýja menntastefnu Reykjavíkur sem nú er í mótun. Samráðið sem er á Betri Reykjavík (menntastefna.betrireykjavik.is) er það víðtækasta sem fram hefur farið um stefnumótun í borginni.

 

  • Fulltrúar foreldra á vinnufundi um nýja menntastefnu Reykjavíkur til ársins 2030.
    Fulltrúar foreldra á vinnufundi um nýja menntastefnu Reykjavíkur.

Þetta er seinni hluti rafræns samráðs um menntastefnuna og er nú leitast við að ná fram hugmyndum borgarbúa um hvernig hrinda megi í framkvæmd þeim áhersluþáttum í nýrri menntastefnu sem urðu að niðurstöðu í víðtæku samráði meðal barna, nemenda, starfsfólks, foreldra og annarra borgarbúa í vor. Þá kom út úr samráðsferlinu að leggja bæri megináherslu á félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði í stefnumótuninni.

Fram eru komnar nær eitt hundrað hugmyndir um aðgerðir til að styðja við þessar áherslur og er hægt að greiða atkvæði um þær, bæta við nýjum og færa fram rök eða á móti.  Hægt er að setja fram nýjar hugmyndir að aðgerðum fram til sunnudagsins 3. september þegar samráðinu lýkur. 

Leitað er eftir hugmyndum um hvernig koma megi fimm áhersluþáttunum stefnunnar í framkvæmd:

  • Félagshæfni: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfinu að öll börn sýni samfélagslega ábyrgð og virkni?
  • Sjálfsefling: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfinu að öll börn öðlist sterka sjálfsmynd og trú á eigin getu?
  • Læsi: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfinu að öll börn öðlist skilning geti lesið samfélag og umhverfi?
  • Sköpun: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfi að öll börn beiti skapandi hugsun?
  • Heilbrigði: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfi að öll börn tileinki sér heilbrigðan lífsstíl og líði vel?

Taktu þátt í að móta menntastefnu Reykjavíkur fram til ársins 2030 á Betri Reykjavík.