Mannréttindaskrifstofa hlýtur Kærleikskúluna 2017 | Reykjavíkurborg

Mannréttindaskrifstofa hlýtur Kærleikskúluna 2017

miðvikudagur, 6. desember 2017

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hlýtur kúluna í ár fyrir samkomulag sem skrifstofan gerði við Landssamtökin Þroskahjálp vegna notendaráðs fatlaðs fólks.

  • Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri tekur við Kærleikskúlunni sem Lilja Baldvinsdóttir gestur í Reykjadal afhenti
    Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri tekur við Kærleikskúlunni sem Lilja Baldvinsdóttir gestur í Reykjadal afhenti
  • Starfsmenn mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar ásamt formanni mannréttindaráðs við afhendingu Kærleikskúlunnar 2017
    Starfsmenn mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar ásamt formanni mannréttindaráðs við afhendingu Kærleikskúlunnar 2017
  • Kærleikskúlan 2017 er hönnuð af listamanninum Agli Sæbjörnssyni í samstarfi við tröllin Ūgh og Bõögâr
    Kærleikskúlan 2017 er hönnuð af listamanninum Agli Sæbjörnssyni í samstarfi við tröllin Ūgh og Bõögâr

 Kærleikskúla Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra er veitt í viðurkenningarskyni fyrir störf í þágu fatlaðs fólks. Þetta er í fimmtánda sinn sem Kærleikskúlan er veitt en hún leit fyrst dagsins ljós árið 2003. Í fréttatilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra segir:

„Það er mat stjórnarinnar að Mannréttindaskrifstofan hafi með samningnum sýnt mikilsverðan skilning og vilja til þess að tryggja að raddir fólks með þroskahömlun heyrist og að það fái þannig raunverulegt tækifæri til að taka þátt í að móta samfélagið,“

Listamaðurinn Egill Sæbjörnsson hannar Kærleikskúluna að þessu sinni í samvinnu við ímyndaða vini sína, tröllin Ūgh og Bõögâr. Egill var fulltrúi Íslands á Feneyja tvíæringnum í ár og þar voru tröllin í aðalhlutverki. Hann segir að þau hafi verið mjög áhugasöm um að aðstoða hann við gerð Kærleikskúlunnar og vildu helst gera kúlurnar sjálfir. 

Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal.