Mannréttindamiðuð þjónusta | Reykjavíkurborg

Mannréttindamiðuð þjónusta

miðvikudagur, 13. júní 2018

Velferðarsvið, Geðhjálp og Landspítalinn stóðu saman að fjögurra daga námskeiði fyrir notendur og fagfólk um mannréttindamiðaða þjónustu við geðfatlað fólk. Dr. Fiona Morrisey var lykilfyrirlesari á námskeiðinu en hún er ein af höfundum námsefnis Alþjóða heilbrigðisstofnunar, WHO, um mannréttindamiðaða geðheilbrigðisþjónustu.

 • Á námskeiðinu fengu 30 notendur og starfsmenn fræðslu um mannréttindamiðaða þjónustu.
  Á námskeiðinu fengu 30 notendur og starfsmenn fræðslu um mannréttindamiðaða þjónustu.
 • Dr. Fiona Morrisey og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
  Dr. Fiona Morrisey og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar en Geðhjálp hafði frumkvæði að komu Fionu.
 • Dr. Fiona Morrisey er frumkvöðull í þjónustu við geðfatlað fólk.
  Dr. Fiona Morrisey er í hópi þeirra sem samið hafa ný viðmið og námsefni WHO í þjónustuð við geðfatlað fólk.
 • Þátttakendur á námskeiðinu voru almennt mjög ánægðir með námsefnið og sér í lagi með hagnýtt gildi þess.
  Þátttakendur á námskeiðinu voru almennt mjög ánægðir með námsefnið og sér í lagi með hagnýtt gildi þess.

Fiona er í hópi sérfræðinga sem hafa þróaði ný viðmið og samið námsefni WHO, um hvernig auka megi mannréttindi í geðheilbrigðisþjónustu og annarri tengdri þjónustu. Þar er m.a. horft til fyrirframgerðrar ákvarðanatöku, sem vísar til þess að einstaklingurinn sem stríðir við geðsjúkdóm stýrir því sjálfur hvernig brugðist er við í veikindum hans og forðast er að nota allar þvingandi aðgerðir og aðgerðir sem taka af fólki sjálfræði. Einstaklingurinn stjórnar því sjálfur hvernig meðferð hans og stuðningi er best háttað.

Ísland er eitt fyrsta landið til að halda námskeið í efni WHO um mannréttindamiðaða þjónustu. Þess má geta að fyrirframgerð ákvarðanataka hefur borið góðan árangur t.d. í Virginíu í Bandaríkjunum og í kjölfar beiðnar frá Geðhjálp hefur heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ákveðið að stofna starfshóp til að kanna hvort ekki eigi að innlima þessa aðferð í geðheilbrigðiskerfið hér á landi.

Almenn ánægja var með námskeiðið en þar voru með innlegg auk Fionu, Héðinn Unnsteinsson, sem fjallaði um árangur þrátt fyrir veikindi, Ágúst Kristján Steinarrsson sem fjallaði um sína reynslu af valdbeitingu og sjálfræði einstaklings með geðsjúkdóma og Gunnhildur Una Jónsdóttir sem fjallaði um studda ákvarðanatöku í tengslum við raflostsmeðferð.

Fiona er með doktorsgráðu í lögfræði og sérhæfð í réttindum geðfatlaðra út frá Samningi Sameinuðu þjóðannna um réttindi fatlaðs fólks.  hún hefur starfað í háskólasamfélaginu á Írlandi sl. fimmtán ár en starfar nú sjálfstætt við kennslu á mannréttindamiðaðri þjónustu.

Hún hefur beitt sér sérstaklega fyrir breytingum á lögum með réttindi geðfatlaðs fólks að leiðarljósi. Hún hefur barist fyrir málefnum fólks með geðsjúkdóma í alþjóðlegu lagaumhverfi, m.a. í Bandaríkjunum og á Írlandi. Hún hefur gefið út fjölda greina og bók um málefnið auk þess að sitja í nefndum og ráðum á Írlandi sem lúta að málaflokknum.