Málþing um bernskulæsi

Skóli og frístund Menning og listir

""

Gildi myndbóka, orðlistar og tóna í leik og starfi með ungum börnum er yfirskrift málþings um bernskulæsi sem haldið verður föstudaginn 8. nóvember nk. Að málþinginu stendur Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, í samvinnu við SÍUNG - félag barnabókahöfunda, Fyrirmynd - félag myndhöfunda og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Málþingið er haldið í Skriðu, sal Menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð.

Þingið, sem stendur frá kl. 14 – 17, er öllum opið og aðgangur er ókeypis. Sjónum verður beint að mikilvægi orðlistar, mynda og tóna í lífi ungra barna og fjallað um þetta efni frá ólíkum hliðum.

Þingið á erindi til allra sem sinna ungum börnum eða koma að málefnum sem þau varða, kennara og annars starfsfólks á leikskólum, bókasafnafólks, rit- og myndhöfunda, fræðimanna, foreldra og aðstandenda barna og allra annarra sem áhuga hafa á þessu brennandi málefni.

Kynnir og stjórnandi málþingsins verður Ingimar Waage, lektor í listkennslu við Listaháskóla Íslands.

Dagskrá málþingsins:

· Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ: „Þykist þú kunna að lesa, eða hvað?“
Í erindinu fjallar Anna um bernskulæsi og mikilvægi þess að börn hafi aðgang að vönduðum, fjölbreyttum og skemmtilegum bókum á heimilum sínum og í leikskólum.

· Kristín Ragna Gunnarsdóttir, myndhöfundur og Anna Cynthia Leplar, myndhöfundur og deildarstjóri teiknibrautar Myndlistarskólans í Reykjavík: „Máttur myndlýsinga: Mikilvægi myndmáls í barnabókum.“

· Bryndís Loftsdóttir, Félagi íslenskra bókaútgefenda: „Óskabækur leikskólabarna eða barnabækur fyrir kaupendur?“ Bryndís spjallar um þróun í sölu og útgáfu barnabóka síðustu ár.

HLÉ

· Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ: „Engin tunga er án tóna. Um töfratengingar tóna og tungumáls.“

· Ásmundur Örnólfsson, aðstoðarleikskólastjóri: „Frá skrímslum til Ljónshjarta. Ferðalag um bókheim Ægisborgar.“ Ásgrímur segir frá því hvernig hugað er að og unnið með bækur í leikskólanum Ægisborg en þar er mjög framsækið starf unnið á þessu sviði.

· Ingimar Waage, lektor við LHÍ: Samantekt og umræður.

Boðið verður upp á léttar veitingar og notalega samveru að lokinni dagskrá á bókasafni Menntavísindasviðs.