Malbikað í Reykjavík fyrir 1,4 milljarða í sumar

Umhverfi Framkvæmdir

""

Borgarráð hefur heimilað  umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við malbikun á þessu ári.

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg verið í malbikunarátaki en á árunum eftir hrun var dregið úr malbikun til að mæta efnahagsástandinu.

Í fyrra var malbikað fyrir rúmlega tvo milljarða sem var met en þá var lagt malbik á 9,4% gatnakerfisins í borginni. Í ár stendur til að malbika 35 kílómetra af götum borgarinnar og mun það kosta rúmar 1.400 milljónir króna. Það eru um 8,5% af heildarlengd gatna í borginni. Ef árlega eru endurnýjuð um 6% af heildarlengd gatnakerfisins er það í jafnvægisástandi.

Bæði er um að ræða malbikun yfirlaga sem og endurnýjun með fræsingu og malbikun.

Þá verður einnig unnið við hefðbundnar malbiksviðgerðir í sumar og er kostnaður við þær áætlaður 205 milljónir króna.

Samkvæmt fjárhagsáætlun 2018-2022 er gert ráð fyrir 6.120 milljónum króna til endurnýjunar á malbiksyfirlögum auk hefðbundinna malbiksviðgerða.

Að auki verða götur sem til stendur að endurnýja í miðborginni malbikaðar en þar er m.a. um að ræða Frakkastíg og vestasta hluta Hverfisgötu.

Malbikunar framkvæmdir 2019