Mæta í nýjan leikskóla á föstudaginn

Skóli og frístund

Sólrún Óskarsdóttir leikskólastjóri Brákarborgar

Leikskólabörn í Brákarborg mæta í nýjan og glæsilegan leikskóla við Kleppsveg á föstudag. Verið er að leggja lokahönd á nýja húsnæðið og pakka niður dóti og munum úr gamla leikskólanum og því í nógu að snúast.

Sólrún Óskarsdóttir, leikskólastjóri segir starfsfólkið mjög spennt fyrir að hefja störf í nýju og glæsilegu húsnæði þar sem aðstæður samrýmast nútímakröfum. „Sumir eru samt ekki búnir að sjá húsnæðið, eins og þeir sem ég réði sitt hvoru megin við sumarfrí. Ég er mjög spennt að sýna þeim það,“ segir Sólrún.

Ætla að halda í menningu leikskólans þrátt fyrir mikla stækkun

Brákarborg sem verið hefur til húsa í Brákarsundi mun geta tekið við mun fleiri börnum eftir flutninginn og fer fjöldinn úr 44 börnum í 110. Sólrún segir að mikið verði lagt upp úr að halda í þá notalegu menningu sem verið hefur í þeirra litla leikskóla þó að börnunum fjölgi. „Lóðin er rosalega stór og falleg og er líka hugsuð sem miðstöð fyrir nágrennið þegar leikskólinn er lokaður. Þetta á að vera svona samfélagssvæði,“ segir Sólrún um smekklega hannaða leikskólalóðina.

Telur að heillandi starfsumhverfi muni auðvelda mönnun
Sólrún fer ekki varhluta af mönnunarvandanum frekar en aðrir leikskólastjórar en er þó bjartsýn á að hún nái að ráða fólk áður en öll ný börn hafa lokið aðlögun. Ólíkt grunnskólunum geta ekki allir byrjað sama dag í leikskóla og mun aðlögunin fara fram í þremur lotum. „Ég held að þegar við getum farið að sýna frá nýja leikskólanum á samfélagsmiðlum að þá eigi aðlaðandi starfsumhverfi eftir að heilla.“ Þrír af starfsmönnunum eru að hefja nám í leikskólafræðum og því þarf að ráða fleiri en annars. Algengt er að þeir sem fara í námið séu starfandi innan leikskóla og velja að taka námið með vinnu. „Það eru fáir sem eru tilbúnir til að taka námslán og vinna ekki og í raun bara örfáir sem gera það. Flestum gengur vel að samtvinna nám og vinnu,“ segir Sólrún.