Lýsingin á endurnýjuðum torgum í Mjódd verðlaunuð

Litrík lýsing í Mjóddinni. Myndir/Örn Erlendsson
Listaverk lýst upp í mörgum litum í Mjóddinni.

Lýsingin á nýlega endurnýjuðum torgum í Mjóddinni hlaut heiðursviðurkenningu í flokknum landslagslýsing á alþjóðlegu LIT-lýsingarverðlaununum sem veitt voru í gær en hönnunin var í höndum Lisku í samstarfi við Landmótun.

Lýsingin hefur vakið töluverða athygli og glatt gesti og gangandi á þessum fallegu torgum í Mjóddinni sem hafa tekið algjörum stakkaskiptum.

Áhersla er lögð á að auka yndi og ánægju vegfarenda með lit og lýsingu. Þarna er að finna spennandi ljósalistaverk í mörgum litum, litskrúðuga og öðruvísi hjólaboga, túlípanasæti og ljóslínur í hellulögn. Heildarhönnun svæðisins fær að njóta sín á öllum árstíðum og allan sólarhringinn.

Það er vel hægt að mæla með heimsókn í Mjóddina til að virða fyrir sér litalistaverkin núna í skammdeginu. Meðfylgjandi myndir eftir Örn Erlendsson tala sínu máli.

Til hamingju Liska og Reykvíkingar!

Litrík lýsing í Mjóddinni