Lykilatriði að sníða stuðning að mismunandi getu og þörfum flóttafólks

Nokkur fjöldi fólks var viðstaddur fundinn

Hópur fagfólks, sem starfar að málefnum flóttafólks og virkni- og vinnumarkaðsúrræðum, kom nýverið saman á vinnufundi. Það var Alþjóðateymi Reykjavíkurborgar sem skipulagði daginn í samvinnu við Vinnumálastofnun, Atvinnu- og virknimiðlun borgarinnar og Hitt húsið. Markmið fundarins var gagnkvæm miðlun þekkingar og reynslu af því að aðstoða fólk við að halda inn á vinnumarkaðinn og skapa grundvöll fyrir auknu samstarfi í málefnum flóttafólks.

Magnea Marinósdóttir, teymisstjóri samræmdrar móttöku flóttafólks, benti í upphafi fundar á þá miklu sérfræðiþekkingu sem væri að finna innan ólíkra stofnanna borgarinnar og ríkisins og hafði á orði að Alþjóðateymið vildi „láta þessa læki renna saman í eina á“ með vísan til mikilvægis þess að eiga samvinnu í málaflokknum þvert á stofnanir. Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi Alþjóðateymis, tók undir það og lagði áherslu á mikilvægi atvinnu og annars konar virkni fyrir inngildingu flóttafólks í samfélagið.

Alls voru sjö erindi haldin á vinnudeginum sem var fylgt eftir með vinnuhópum sem unnu tillögur að næstu skrefum.

Markviss stuðningur sem eflir sjálfstraustið

Guðlaug Hrönn Pétursdóttir, deildarstjóri flóttamannadeildar Vinnumálastofnunar, fjallaði um þá atvinnuráðgjöf og aðra aðstoð sem stofnunin veitir flóttafólki, meðal annars við mat á námi, umsóknir um störf, samskipti við atvinnurekendur og endurgjaldslausa íslensku- og samfélagsfræðslu. Jafnframt greindi hún frá starfsþjálfunarsamningum sem gera flóttafólki kleift að komast á vinnumarkað, afla sér starfsreynslu og fá jafnvel starf til frambúðar.

Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, teymisstjóri Atvinnu- og virknimiðlunar, kynnti þarnæst Út á Vinnumarkaðinn sem er sniðið að þörfum vinnufærra einstaklinga á fjárhagsaðstoð. Þar er einstaklingum veitt aðstoð við að efla vinnugetu sína og færni til atvinnuleitar sem er allt liður í því að auka sjálfstraustið sem þarf til að halda út á vinnumarkaðinn eftir langt hlé.  Þátttakendurnir mynda einnig sína eigin stuðningshópa og hefur verkefnið, sem unnið er í samvinnu við fjölmarga samstarfsaðila, gefið mjög góða raun.  

Atvinnuráðgjöf Hins hússins

Samskonar verkefni er unnið á vegum Hins Hússins þar sem markhópurinn er ungt fólk. Atvinnuráðgjafarnir Auður Kamma Einarsdóttir og Breki Bjarnason sögðu frá verkefninu Vítamín sem hóf göngu sína árið 2009 í samstarfi við Vinnumálastofnun og felur í sér atvinnuráðgjöf til einstaklinga á aldrinum 16–29 ára. Í kjölfar fjögurra vikna sjálfseflingarnámskeiðs fara ungmennin í starfsþjálfun sem getur leitt til áframhaldandi vinnu eða reynslu, meðmæla og tengslanets sem nýtist við atvinnuleit. Námskeiðinu Háskólavítamín var síðan bætt við til að koma betur á móts við ólíka getu og þarfir aldurshópsins eftir menntunarstigi. Námskeiðin hafa gefið mjög góða raun, einkum í röðum ungra kvenna.

Íslenskukunnátta er mikilvæg en einnig enskukunnátta

Ahmad Thabet, menningarmiðlari í Alþjóðateyminu, sagði frá eigin reynslu af atvinnuleit en hann kom upphaflega til Íslands sem umsækjandi um alþjóðlega vernd frá Palestínu. Hann sagði kröfu fyrirtækja um meðmæli oft flókin fyrir flóttafólk í leit að atvinnu, auk kröfunnar um starfsreynslu hér á landi. Hann nefndi jafnframt að mikilvægt væri að auka samskipti milli Vinnumálastofnunar og vinnumarkaðarins og lagði til að staðið yrði fyrir uppákomum þar sem flóttafólk fengi tækifæri til að hitta forsvarsfólk fyrirtækja. Þá kom hann einnig inn á mikilvægi tungumálakennslu og sagði ekki síður mikilvægt að kenna flóttafólki ensku, sérstaklega þeim sem hafa grunn í tungumálinu. „Þetta er mikilvægt því íslenska er mjög erfitt og það er tímafrekt að læra hana,“ sagði hann meðal annars.

Markviss stuðningur við ólíka hópa flóttafólks er leiðin til árangurs 

Gerður Gestsdóttir Valgerðardóttir, ráðgjafi í Alþjóðateyminu, greindi frá  niðurstöðu rannsóknar sinnar um afdrif flóttakvenna frá Kólumbíu á vinnumarkaði um áratug eftir komu þeirra. Niðurstöðurnar staðfestu að markviss stuðningur við komuna til landsins skiptir sköpum fyrir framtíð flóttafólks. Íslenskukunnátta kvennanna hafði haft mikil áhrif á framgang í starfi og andlega líðan. Þeim sem höfðu getað lært meira gekk betur á vinnumarkaði. Greinilegur munur var á þeim sem fóru í meira íslenskunám. Þær urðu síður óvinnufærar og voru með jákvæðari framtíðarsýn. Hins vegar kom einnig fram að aldur kvennanna skipti máli. Yngri konur náðu frekar að fóta sig sem undirstrikar þörfina á að huga sérstaklega að málum eldra flóttafólks. 

Deildi reynslu sinni af störfum með flóttafólki í Svíþjóð

Lokaerindið var haldið af Eddu Sigurbjörgu Ingólfsdóttur, ráðgjafa í Alþjóðateyminu, sem deildi 15 ára reynslu sinni frá Malmö í Svíþjóð þar sem hún vann bæði hjá Vinnumálastofnun og sveitarfélaginu að verkefnum sem lutu að því að veita mismunandi hópum flóttafólks markvissan stuðning í samræmi við þeirra þarfir. Hún gerði grein fyrir nokkrum verkefnum, meðal annars grein fyrir átaksverkefni sem sneri að flóttakonum sem voru síður virkar í atvinnuleit samanborið við karla og atvinnuþátttaka þeirra jafnframt minni. Námskeiðið tók mið af ástæðunum sem lágu að baki sem voru annars vegar menningarbundin viðhorf innan þeirra eigin samfélags um hlutverk karlmanna sem fyrirvinnu og hins vegar dulinna fordóma starfsmanna sem höfðu tilhneigingu til að „hlífa“ konum í stað þess að veita þeim upplýsingar um hvað stæði þeim raunverulega til boða á vinnumarkaði.

Vilja auka samvinnu og sníða verkefni betur að þörfum ólíkra hópa

Eftir að erindunum lauk var unnið í þremur vinnuhópum að tillögum um hvað mætti gera betur í málaflokknum. Það var einhugur meðal fundamanna að eftir því sem betur er hlúð að flóttafólki á meðan það er að koma undir sig fótum í framandi landi með tungumálakennslu, samfélagsfræðslu, virkninámskeiðum og opnun tækifæra, því betur vegnar þeim til lengri tíma litið. Það var einnig almenn samstaða um að byggja á því sem fyrir er og sníða námskeið, sem eru nú þegar í boði og hafa gefið góða raun, betur að mismunandi getu og þörfum flóttafólks og gera þau þannig aðgengilegri. Einnig að skoða betur þau úrræði sem nágrannaríki eins og Svíþjóð hafa framkvæmt. Lokaniðurstaðan var að halda áfram veginn og vinna að frekari framgangi tillagna fundarins.