Lyfjum skilað í apótek til eyðingar | Reykjavíkurborg

Lyfjum skilað í apótek til eyðingar

fimmtudagur, 25. janúar 2018

Afgangslyf mega ekki fara í ruslið, vask eða klósett. Þeim ber að skila í apótek til eyðingar. Átaksvika um lyfjaskil hefst 28. janúar.

  • Lyfjaskil
    Lyfjaskil

Reykjavíkurborg, Veitur og Lyfjastofnun efna til átaksviku undir heitinu Lyfjaskil - fyrir þig og umhverfið dagana 28. janúar til 3. febrúar. Afar mikilvægt er að þau flóknu og oft ágengu efni sem finnast í lyfjum berist ekki út í umhverfið. Lyfjum skal því skila í apótek til eyðingar.

Reykjavíkurborg leitaði eftir samstarfi við Lyfjastofnun til að draga enn frekar úr lyfjaleifum í blönduðum úrgangi sem fer í gráu tunnuna. Birtist sú samvinna nú í átakinu Lyfjaskil – fyrir þig og umhverfið.

Átaksverkefnið tengist verkefni Lyfjastofnunar,  Lyfjaskil – taktu til! árið 2017. Í aðdraganda þess verkefnis var kannað meðal almennings hvernig menn losuðu sig við lyf sem ekki væri þörf fyrir lengur. Í ljós kom að 7,7% fleiri skiluðu lyfjum í apótek til eyðingar en áður en átakið var gert. Full ástæða er til að gera nýtt átak í þessum efnum.

Átaksvikuna 28. janúar til 3. febrúar verður almenningur hvattur á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum til að skila óþörfum og gömlum lyfjum í apótek. Í apótekum á höfuðborgarsvæðinu verður hægt að fá gefna lyfjaskilapoka. Þeir eru gagnsæir og í þá skal setja afgangslyf sem síðan er skilað til eyðingar í apótek. Pokarnir eru úr efni sem brotnar niður í náttúrunni.

Hægt er að nálgast upplýsingar um átakið á www.lyfjaskil.is um flokkun, skil á lyfjum og umbúðum á þeim.

Tengill

www.lyfjaskil.is

Lyjaskil - veggspjald

Lyfjaskil - poki

Myndband: Lyfjaskil fyrir þig og umhverfið