Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar 2019

Velferð Umhverfi

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag birtingu lýðheilsuvísa Reykjavíkurborgar. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan borgarbúa og heilsueflandi aðstöðu í borginni.

Þeir verða notaðir m.a. til að upplýsa stefnumótun í lýðheilsu hjá Reykjavíkurborg og sem hluti af því að setja mælanleg markmið í lýðheilsumálum.

Lýðheilsuvísarnir voru unnir í samvinnu við Embætti landlæknis og Rannsóknir og greiningu með lýðheilsuvísa Embættis landlæknis á landsvísu til hliðsjónar, og þeir þróaðir áfram fyrir borgina.  Við valið var leitast við að velja vísa sem saman gefa heildstæða, raunsæja og lýsandi mynd af heilsu í Reykjavík og tengja heilsu við verk- og valdsvið borgarinnar.

Lýðheilsuvísarnir eru í fjórum hlutum; íbúar, lifnaðarhættir, heilsa og umhverfi og innviðir. Þessir hlutar eru sambærilegir við flokkun lýðheilsuvísa Embættis landlæknis á landsvísu en bætt hefur verið við fjórða flokknum, „Umhverfi og innviðir“, þar sem t.d. eru birtar upplýsingar um lengd göngu- og hjólastíga, aðgengi að grænum svæðum og fjölda bekkja í borginni.

Lýðheilsuvísarnir verða birtir á heimasíðu Reykjavíkurborgar og verða aðgengilegir á tölfræðivef borgarinnar á lifandi vefsvæði. Stöðugt verður unnið að því að bæta gögnin til að gefa sem gleggsta mynd af lýðheilsu í borginni.

Á morgun föstudaginn 7. júní 2019, verður haldinn morgunverðarfundur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur þar sem fjallað verður um lýðheilsuvísana.

 

Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar 2019.