Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar

Umhverfi Skipulagsmál

""

Á opnum fundi sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun var fjallað lýðheilsuvísa og lýðheilsuvísar Reykavíkurborgar birtir. Á fundinum fór fram undirritun samstarfssamnings um Heilsueflandi samfélag milli Reykjavíkurborgar, Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Birting lýðheilsuvísa veitir yfirsýn yfir lýðheilsu og auðveldar sveitarfélögum, heilsueflandi samfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna, finna styrkleika og áskoranir og skilja þarfir íbúanna þannig að hægt sé að vinna að því að bæta heilsu og líðan.

Lýðheilsuvísarnir voru unnir í samvinnu við Embætti landlæknis og Rannsóknir og greiningu með lýðheilsuvísa Embættis landlæknis á landsvísu til hliðsjónar, og þeir þróaðir áfram fyrir borgina.  Við valið var leitast við að velja vísa sem saman gefa heildstæða, raunsæja og lýsandi mynd af heilsu í Reykjavík og tengja heilsu við verk- og valdsvið borgarinnar.

Lýðheilsuvísarnir eru í fjórum hlutum; íbúar, lifnaðarhættir, heilsa og umhverfi og innviðir. Þessir hlutar eru sambærilegir við flokkun lýðheilsuvísa Embættis landlæknis á landsvísu en bætt hefur verið við fjórða flokknum, „Umhverfi og innviðir“, þar sem t.d. eru birtar upplýsingar um lengd göngu- og hjólastíga, aðgengi að grænum svæðum og fjölda bekkja í borginni.

Lýðheilsuvísarnir verða birtir á heimasíðu Reykjavíkurborgar og verða aðgengilegir á tölfræðivef borgarinnar á lifandi vefsvæði. Stöðugt verður unnið að því að bæta gögnin til að gefa sem gleggsta mynd af lýðheilsu í borginni.

Á opnum fundi sem haldinn var um lýðheilsuvísana í morgun tóku til máls:

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Lýðheilsuvísar og borgarskipulag.
Alma D. Möller, landlæknir. Heilsueflandi samfélag og lýðheilsuvísar – mikilvægi svefns fyrir heilsu og vellíðan.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu. Það eru engir töfrar.
Unnur Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri lýðheilsu á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar.

Beint streymi var af fundinum

Á fundinum fór fram undirritun samstarfssamnings um Heilsueflandi samfélag milli Reykjavíkurborgar, Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar 2019