Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík dróst saman um 60.000 CO2 ígildi

Umhverfi

""

Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík dróst verulega saman á milli áranna 2019 og 2020, úr 594.000 tonn CO2 ígilda í 535.000 eða um 60.000 tonn CO2 ígilda þegar á heildina er litið. Stærsti hluti samdráttarins er vegna minni bílaumferðar árið 2020 og nam samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna um 50.000 tonn CO2 ígilda. Næst stærsti hluti samdráttarins var vegna minni urðunar, eða tæp 10.000 tonn CO2 ígilda.

Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík er öll losun sem á sér stað innan borgarmarka, vegna umsvifa og daglegs lífs allra þeirra sem búa og starfa í Reykjavík. Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík árið 2020 þegar allt er talið saman með þeim upplýsingum sem liggja fyrir eru 535.000 tonn CO2 ígilda.

Alþjóðleg samtök og aðferðafræði

Reykjavík hefur verið aðili að alþjóðlegu samtökunum Global Covenant of Mayors for Climate and Energy (GCoM) og forverum þess síðan 2012. Hluti af því að vera aðili að samtökunum er að skila inn samantekt á mati á losun gróðurhúsalofttegunda. Matið er byggt á aðferðafræði sem er kölluð City Inventory Reporting and Information System (CIRIS). Sú aðferðafræði byggir á alþjóðlega staðlinum Global Protocol for Community-Scale Greenhouse Gas Emission Inventories (GPC) sem er gefin út af GHG Protocol. Tilgangurinn með slíku mati er að sjá hver er helsta áskorunin við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvar má helst forgangsraða aðgerðum í loftslagsmálum.  Aðferðafræðin hefur verið í þróun undanfarin ár og gögnin alltaf að verða betri.

Mun lægri tölur hvað varðar losun frá rekstri Reykjavíkurborgar

Þó að tölurnar séu ekki sambærilegar er gott að hafa samanburð við aðrar stærðir þegar horft er til losunar í Reykjavík. Í Reykjavík er losun gróðurhúsalofttegunda 535.000 tonn CO2 ígilda árið 2020. Sem dæmi má nefna að losun gróðurhúsalofttegunda á öllu Íslandi (án losunar frá landi) voru um 4.7 milljónir tonna CO2 ígilda árið 2019. Einnig til samanburðar má nefna að losun frá rekstri Reykjavíkurborgar eru tölurnar mun lægri. Sem dæmi má nefna að losun frá rekstri A hluta Reykjavíkurborgar var um 2.000 tonn árið 2020 og losun frá rekstri Strætó 3.500 tonn CO2 ígilda.

Tenglar