Lokafundur með fulltrúum atvinnulífsins

Stjórnsýsla Atvinnumál

""

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, hélt lokafund á þessu ári með fulltrúum atvinnulífsins í Höfða.    

Reykjavíkurborg hefur boðið fulltrúum frá samtökum atvinnulífsins á nokkra samráðsfundi í Höfða á þessu ári. Tilgangur fundanna er að skapa samtal á milli atvinnulífs og borgar um það hvernig hægt sé að bæta þjónustu borgarinnar við fólk og fyrirtæki, auka samvinnu á milli aðila til að örva atvinnulífið og hagvöxt á höfuðborgarsvæðinu sem kemur öllum til góða.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs hefur skipulagt og leitt fundina sem hafa farið fram í Höfða. Borgarritari Stefán Eiríksson hefur einnig setið alla fundina ásamt fleiri fulltrúum frá fagsviðum og skrifstofu borgarstjóra.

Föstudaginn 20. desember fór fram fundur með fulltrúum frá ýmsum klösum og lykilaðilum í stoðkerfi nýsköpunar atvinnulífsins, m.a. sjávarútvegi, ferðamálum, fjármálum og matvælaiðnaði, ál- og orkuiðnaði.

Unnið verður úr niðurstöðum allra fundanna og þær kynntar á fyrstu mánuðum nýs árs. Markmiðið er að Reykjavíkurborg og atvinnulífið í landinu skilji betur gagnkvæmar þarfir og væntingar.

Áður hafa verið haldnir sambærilegir fundir með Viðskiptaráði, Samtökum ferðaþjónustunnar SAF, Samtökum Iðnaðarins SI, Samtökum verslunar og þjónustu SVÞ  og Félagi Atvinnurekenda FA og Félagi kvenna í atvinnulífinu FKA.

Þórdís Lóa telur fundina hafa verið mjög gagnlega fyrir Reykjavíkurborg. „Við höfum tekið saman allar hugmyndir og punkta sem hafa komið fram á þessum fundum. Þetta góða samtal ætlum við að nýta til að bæta þjónustu borgarinnar, stytta boðleiðir og efla atvinnulíf í Reykjavík,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs.