Lögmætur fundur í skipulags- og samgönguráði 15. ágúst

Samgöngur Skipulagsmál

""

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hélt fund í dag samkvæmt dagskrá og fundadagatali. Fulltrúar minnihlutans í ráðinu viku af fundi áður en afgreiðsla mála og kynningar fóru fram. 

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar vill af því tilefni koma því á framfæri að fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar 15. ágúst 2018 var lögmætur að mati lögfræðinga sviðsins og lögfræðinga miðlægrar stjórnsýslu. Allir fulltrúar í ráðinu vissu af fundinum. Tæknilegir örðugleikar – tímabundin bilun í tölvukerfi - olli hins vegar því að fundardagskrá og gögn voru send út seinna en venja er. Innsláttarvillur í netföngum urðu til þess að ákveðnir ráðsmenn fengu boðun á fundinn seinna en aðrir en fulltrúarnir voru í samtali við starfsfólk sviðsins sem baðst velvirðingar á mistökunum og allir mættu á fundinn.

Starfsfólk umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar vann að fullum heilindum að boðun fundar og var fulltrúum minnihluta í upphafi ráðsfundar gefinn kostur á að fá frestun á öllum þeim málum sem þeir óskuðu eftir, til að kynna sér málin betur. Það er öllum í hag að ráðsmenn séu sem best undirbúnir fyrir ákvörðunartöku.

Mál voru afgreidd að venju og kynningar fóru fram m.a. á deiliskipulagi vegna lagningu brúar yfir Fossvog. Þá voru mál send í borgarráð til fullnaðarafgreiðslu eins og vera ber. Einnig var ákveðið að halda aukafund í ráðinu næsta föstudag, 17. ágúst, til þess að gefa þeim fulltrúum sem kusu að yfirgefa fundinn tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum við þau mál sem heimilt er að fullnaðarafgreiða.

Umhverfis og skipulagssvið leggur sig fram við að eiga gott og uppbyggilegt samstarf og þjónusta kjörna fulltrúa úr öllum flokkum sem best, hér eftir sem hingað til.