Lóðir í Úlfarsárdal boðnar til sölu

Framkvæmdir Stjórnsýsla

""

Reykjavíkurborg efnir öðru sinni á þessu ári til opins útboðs um byggingarrétt á lóðum í Úlfarsárdal.  Lausar lóðir eru bæði í grónari hluta hverfisins og á nýju svæði við Leirtjörn. Frestur til að skila tilboði rennur út kl. 12.00 miðvikudaginn 19. september nk.

Útboðið er með sama fyrirkomulagi og var viðhaft í fyrra útboði Reykjavíkurborgar síðastliðið í vor. Þá bárust tilboð í byggingarrétt flest allra lóðanna. Sökum þess að margir bjóðendur staðfestu ekki boð sitt á útboðsfundi með greiðslu tilboðstryggingar, mættu ekki á útboðsfundinn eða féllu frá boðum af öðrum ástæðum, féllu all nokkur tilboð niður. Einnig gengu nokkrar lóðir ekki út vegna ákvörðunar borgarráðs að selja ekki byggingarrétt ef tilboð í hann var undir einni milljón króna. Verið er að bjóða þær lóðir út nú sem ekki var gengið frá kaupum á í vor.

Skoða nánari upplýsingar um lóðaútboðið.

Tilboð verða opnuð 19. september, sama dag og tilboðsfrestur rennur út, í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Til að stytta nauðsynlega viðveru bjóðenda verða tilboð opnuð á eftirfarandi tímum:

  • Tilboð í fjölbýlishús verða opnuð frá kl. 14.00
  • Tilboð í raðhús verða opnuð frá kl. 14.30
  • Tilboð í tvíbýlishús verða opnuð frá kl. 15.00
  • Tilboð í einbýlishús verða opnuð frá kl. 15.30

Mikil uppbygging á sér stað í Úlfarsárdal. Mikill kraftur er í smíði íbúða og neðst í hverfinu reisir Reykjavíkurborg glæsilegt mannvirki sem hýsa mun skóla, leikskóla, menningarmiðstöð, bókasafn, sundlaug og íþróttamannvirki. Verkið gengur mjög vel og nú þegar hefur hluti byggingarinnar verið tekinn í notkun og uppbygging á íþróttasvæði er vel á veg komin.

Úlfarsárdalur býður gott aðgengi að fjölbreyttum útivistar- og náttúrusvæðum með einstöku samspili fjallsins, dalsins og árinnar. Gróður við Leirtjörn mun taka mið af aðstæðum en við bakka tjarnarinnar verður leitast við að endurheimta náttúrlegt gróðurlendi. Við Leirtjörn verður útivistarstígur sem tengist stígakerfi Úlfarsfells.

Tengt efni: