Litrík og skemmtileg jólaborg

Framkvæmdir Mannlíf

""

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur lagt sig allt fram við að skapa fallega og gleðilega jólaborg. Um það bil 130 þúsund perur tilheyra jólaskreytingunum að þessu sinni.

Starfsfólk Skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins hefur verið önnum kafið við að búa borgina undir jólahátíðina. Val á efni og skrauti var gert í góðu samstarfi við Borgarhönnun hjá umhverfis- og skipulagssviði. Borgarbúar ættu því að koma auga á ýmislegt nýtt og skemmtilegt að þessu sinni.

Starfsfólk hefur fest upp skraut, sett lýsingu víða og komið fyrir jólatrjám með seríum. Um það bil 130 þúsund perur tilheyra þessum skreytingum og er þá ótalið skautasvellið sem NOVA hefur sett upp á Ingólfstorgi sem telur um það bil 40 þúsund perur.

Þetta jólaverkefni hófst um miðjan október og stendur í raun langt fram í febrúar því það þarf víst að taka skrautið niður aftur. Starfsfólk fylgist vel með og sinnir viðhaldi og einnig þarf að hafa umsjón með göngugötum um jólin.

Annað á aðventunni

Annars verður margt um að vera víðsvegar í jólaborginni á aðventunni sem kynnt verður jafnóðum. Jólasveinar, Grýla og Leppalúði, ævintýrapersónur, kórar og sönghópar munu bregða á leik í miðborginni og skjóta upp kollinum hér og þar, flytja jólalög og skemmta börnum og fullorðnum.

Ratleikurinn Jólavættirnir í Reykjavík stendur yfir 7.-27. desember og jólaskógurinn verður í Tjarnarsal ráðhússins, opnar 7. desember. Einnig opnar jólatorg í Hjartargarðinum þann 14. des. kl 16:00 og verður opið til jóla.

Í Tjarnarnsalnum er líka sýnd norska bíómyndin Doktor Proktor og prumpuduftið eftir bók Jo Nesbø en hún verður sýnd allan desember mánuð. Oslóarborg færir borginni kvikmyndina að gjöf og hefur hún verið talsett á íslensku. Myndin er sýnd tvisvar á dag, klukkan 11.00 og klukkan 13.00 alla daga vikunnar og aðgangur er ókeypis.