Listahátíð í Reykjavík tekur yfir Iðnó

Menning og listir Mannlíf

""

Listahátíð í Reykjavík tekur yfir Iðnó í sumar og býður þar upp á fjölbreytta viðburðadagskrá undir merkjum Klúbbs Listahátíðar.

Reykjavíkurborg vill með þessari tímabundnu ráðstöfun halda lífi í hinu sögufræga húsi næstu mánuði eða þar til ákveðið verður hvernig haga eigi starfsemi þess til framtíðar. Klúbbur Listahátíðar hefur mikilvægu hlutverki að gegna á hátíðinni og verður opinn að minnsta kosti fjóra daga í viku. Þar er hvatt  til lýðræðislegrar virkni og þátttöku í listum og viðburðir þar verða allir ókeypis almenningi. 

Áberandi hluti dagskrár sumarsins eru svokallaðar Yfirtökur þar sem listhópar af ýmsum toga taka klúbbinn yfir í lengri eða skemmri tíma með alls kyns þátttökuviðburðum og uppákomum. Klúbburinn verður formlega opnaður 6. júní með speglainnsetningunni Sérstæðu.

Auglýst hefur verið eftir áhugasömum aðilum til að sjá tímabundið um veitingarekstur í húsnæðinu í samstarfi við Listahátíð.

Fyrrum rekstraraðili í Iðnó skilaði nýverið húsnæðinu til borgarinnar eftir gjaldþrot en með yfirtöku Listahátíðar tekst að viðhalda öflugu menningarstarfi í þessu elsta samkomuhúsi borgarinnar í sumar. Það samræmist því markmiði Reykjavíkurborgar að glæða miðborgina enn meira lífi næstu mánuði undir heitinu: Sumarborgin 2020.