Líkur á svifryksmengun um áramótin

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum gæti orðið veruleikinn fyrstu klukkustundir nýs árs bæði vegna veðurskilyrða og magns innfluttra flugelda.

Töluvert meira magn af flugeldum var flutt inn til landsins árið 2016 en árið 2015 þótt því verði eflaust ekki öllu skotið upp. Í ár voru flutt inn 662 tonn af flugeldum sem er 118 tonnum meira en árið 2015. Einnig er leyfilegt að selja afganga af flugeldum frá 2015.

Veður

Búist er við norðan golu og þokkalega björtu veðri á gamlárskvöld. Samkvæmt veðurspám verður líklega hægur vindur og engin úrkoma, það lægir eftir miðnætti og gæti orðið kalt. Því er hætta á að loftmengun áramótanna dragist fram eftir nóttu.

Svifryk

Fyrsti dagur ársins getur því orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna flugeldanna og veðurskilyrða. Svifryk fór níu sinnum yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík á árinu 2016. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á þjónustusíðu borgarinnar um loftgæði en þar má sjá staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík.

Hávaði

Hávaði vegna flugelda verður oft mikill en búist er við miklum risatertu- og bardagasprengjum. Foreldrar ættu að gæta að börnum sínum því þau eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir hávaða og dýraeigendur að dýrum sínum. Fólk og börn sem eru viðkvæm fyrir svifryki og hávaða ætti að vera innandyra þegar mest gengur á um miðnættið og loka gluggum.

Flugeldaleifar

Hreinsun borgarlandsins er kostnaðarsöm og eru borgarbúar því eindregið hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja og safna saman því mikla magni af flugeldaleifum sem fellur til eftir sprengingar áramótanna. Reykjavíkurborg vill minna borgarbúa og gesti á að taka flugeldaleifarnar með sér og setja í gráu tunnuna undir almennan úrgang. Ónotuðum skoteldum á að skila sem spilliefni á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Á nýju ári

Eftir áramótin má finna flugeldaleifar víða um borgina og eru íbúar og gestir hvattir til að hirða þær upp og koma í tunnur eða á endurvinnslustöðvar svo þær grotni ekki niður þar sem skotið var upp í görðum, á götum eða opnum svæðum. 

Meginatriði er að fara gætilega, nota hanska og hlífðargleraugu og njóta stundarinnar.

Tenglar

Sorpa
Flugeldaleifar

Loftgæði