Líkan sem hermir olíuslys | Reykjavíkurborg

Líkan sem hermir olíuslys

miðvikudagur, 14. nóvember 2018

Verkfræðistofan Vatnaskil hefur þróað aðferðafræði við reikninga á dreifingu olíu í jarðvegi og grunnvatni.

  • Ljósmynd tekin í Heiðmörk
    Veitur og Vatnaskil nýta nú þá vinnu til að setja upp líkan til að herma olíuslys sem kunna að verða í  nágrenni vatnsbóla Veitna í Heiðmörk.

Möguleg mótvægis- og viðbragðsaðgerð

Veitur og Vatnaskil nýta nú þá vinnu til að setja upp líkan til að herma olíuslys sem kunna að verða í nágrenni vatnsbóla Veitna í Heiðmörk. Líkanið tekur tillit til eðliseiginleika olíu og sýnir hvernig hún getur breiðst út, allt frá upptökum að vatnstökuholum, verði mengunarslys. 

Í vinnunni eru enn fremur lögð drög að virkni mögulegra mótvægis- og viðbragðsaðgerða, en gert er ráð fyrir að líkanið verði fjölnota verkfæri sem muni styðja við gerð viðbragðsáætlana og styrkja ákvarðanatöku varðandi mótvægisaðgerðir fari olía í jörð í nágrenni vatnsvinnslusvæða.

Veitur hafa umsjón með og reka vatnsból á höfuðborgarsvæðinu, á Vesturlandi og á Suðurlandi.  Til að tryggja öflun heilnæms vatns til framtíðar þarf stöðugt aukna þekkingu á þeim mengunarógnum sem steðja að vatnsbólunum, eðli þeirra og áhrifum.

 

Nýtist öðrum fyrirtækjum og stofnunum mögulegra mótvægis- og viðbragðsaðgerða

Ekkert líkan er til fyrir vatnstökusvæði Veitna sem hermir útbreiðslu olíumengunar frá upptökum og þar til hún berst í grunnvatn og dreifist með því. Við útfærslu viðbragðsáætlana og umhverfismats vegna ýmissa fyrirhugaðra framkvæmda á og við vatnsverndarsvæði hefur verið stuðst við núverandi grunnsvatnslíkan Vatnaskila og þá einungis til að leggja mat á dreifingarhraða og viðverutíma olíumengunar eftir að hún hefur borist í grunnvatn. Í það mat vantar útbreiðslu olíu í gegnum jarðveg og jarðlög og að taka tillit til ólíkra eðliseiginleika olíu og vatns.

Aðferðafræðin og líkangerðin mun ekki einungis nýtast Veitum heldur einnig öðrum fyrirtækjum og stofnunum við mat á umhverfisáhrifum vegna ýmissa framkvæmda sem kunna að vera fyrirhugaðar og mengunarhættu sem af þeim stafar. Sem dæmi má nefna viðhald og endurbætur á Suðurlandsvegi sem og ýmsar framkvæmdir á vatnstökusvæðum, t.a.m. vegna aukinnar vatnstöku og lagningar vega og stíga.