Lighting Up Reykjavík sigraði í Reboot Hack

Mannlíf

""

Gagnvirka heimasíðan Lighting Up Reykjavík sem miðar að því að auðvelda ferðamönnum, sem hafa skamman tíma í Reykjavík, að finna áhugaverða afþreyingu sigraði í Reboot Hack, fyrsta hakkaþoninu hér á landi sem skipulagt er af háskólanemum fyrir aðra háskólanema.  

Reboot Hack er nýsköpunarkeppni eða uppfinningamaraþon þar sem áherslan er á að þróa tæknilausn algjörlega frá grunni. Afurðin getur verið í formi vefsíðu, smáforrits, smátækis eða hvernig tækni sem er. Skipuleggjendur Reboot Hack eru: Fríða Snædís Jóhannesdóttir, Kristjana Björk Barðdal og Sara Björk Másdóttir.

Í 1. sæti varð verkefnið Lighting Up Reykjavík sem er vefsíða sem mælir með afþreyingu fyrir ferðamenn sem hafa stuttan tíma í Reykjavík en vilja nýta hann til hins ítrasta. Hugmyndir aðstandenda verkefnisins gera ráð fyrir stuðst yrði við nýjustu tækni, eins og AR-tækni (e. augmented reality) og raddstýringu, í gegnum Alexa í Amazon Echo. Sigurliðið skipa þau Breki Pálsson, Ólafur Jón Valgeirsson, Valgerður Jónsdóttir, Sesar Hersisson og Jóhannes Kári Sólmundarson. Þau eru öll nemendur við Háskóla Íslands.

Í 2. sæti varð verkefnið Driving Iceland sem snerist um að rafvæða ökubókina sem þeir sem hyggjast taka bílpróf þurfa að fylla út. Hún er nú eingöngu á pappír.
Í 3. sæti varð verkefnið Stræto sem hafði það að markmiði að nýta gögn frá Strætó til þess að koma skilaboðum til notenda þjónustunnar um seinkanir á strætisvögnum með tístum á Twitter. Hugmyndin kviknaði hjá einum meðlima hópsins sem lenti í því að koma of seint á hakkaþonið vegna þess strætóinn hans var seinn.

Ljóst er að einhver verkefnanna mun fara í áframhaldandi þróun því fulltrúar frá samstarfsaðilum keppninnar lýstu yfir vilja til frekara samtals um framtíð lausnanna á næstunni. Þá munu aðstandendur Reboot Hack standa fyrir uppskeruhátíð í Kaldalóni í Hörpu laugardaginn 9. febrúar kl. 10-12 í tengslum við UTmessuna. Þar verður viðburðurinn gerður upp, fjallað nánar um hakkaþonmenningu auk þess sem vinningsliðið Lighting up Reykjavík kynnir hugmynd sína.

Dómnefnd Reboot Hack var skipuð þeim Arnheiði Guðmundsdóttur, framkvæmdarstjóra Ský og UTmessunar, Védísi Hervöru Árnadóttur, samskipta- og miðlunarstjóra Viðskiptaráðs Íslands, Kristni Jóni Ólafssyni, verkefnisstjóra Snjallborgarinnar Reykjavíkur, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands, Söru Björk Másdóttur, verkefnastýru Reboot Hack, og Gregor Engelmann, forsvarsmanni Major League Hacking. 

Nánar á heimasíðu Háskóla Íslands