Lífveruleit í lífríki Laugardalsins

Umhverfi

""

Í júlímánuði stendur gestum Grasagarðsins og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins til boða að taka þátt í lífveruleit í lífríki Laugardalsins.

Hér er átt við þær lífverur sem eru þar á eigin vegum, ekki plönturnar sem eru ræktaðar í Grasagarðinum eða húsdýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þetta eru t.d. þrestirnir í trjánum, ánamaðkarnir í moldinni, hunangsflugurnar sem suða í blómabeðunum, fíflarnir sem vaxa upp úr stéttinni og svo framvegis. Það opnast fyrir fólki heill heimur þegar grannt er skoðað.

Alls konar lífverur, dýr, plöntur og sveppir hafa valið Laugardalinn sem sín heimkynni.

Alls staðar finnur lífið sér pláss.

Lífverur sem finna má

Til að taka þátt í lífveruleitinni má nálgast fróðleiksspjöld, annað hvort í afgreiðslu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, eða í anddyri garðskálans í Grasagarðinum. Spyrjið starfsfólkið ef þið finnið ekki spjöldin. Á spjöldunum eru nokkur einföld verkefni/viðfangsefni þar sem þátttakendur eru hvattir til að leita að ákveðnum gerðum lífvera og velta fyrir sér nokkrum áhugaverðum spurningum. Verkefnin henta fróðleiksfúsum á öllum aldri og kjörið fyrir fjölskyldur.

Lífveruleitin er samstarfsverkefni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Grasagarðs Reykjavíkur og Reykjavík-iðandi af lífi en hið síðastnefnda er sérstakt fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni í borginni.

Verið velkomin!