Lífsnauðsynlegur fjölbreytileiki í hættu

Umhverfi

""

Staða líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum í dag er grafalvarleg. Víða um heim á sér stað mikil eyðing búsvæða, hnignun vistkerfa og fækkun tegunda sem er því miður að miklu leyti vegna umsvifa og athafna mannsins. Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni er í dag 22. maí.

Undirstaða náttúruauðlinda

Með líffræðilegri fjölbreytni er átt við margbreytileika lífríkisins í umhverfi fólks, allt frá einstökum tegundum til fjölskrúðugra vistkerfa. Þessi fjölbreytni er undirstaða náttúruauðlinda, sem eru lífsnauðsynlegar fyrir afkomu manna. Hún mótar einnig lífsgæði og hamingju, ekki síst í borgum þar sem náttúra getur verið af skornum skammti.

Reykjavíkurborg samþykkti sérstaka stefnu um líffræðilega fjölbreytni árið 2016. Í stefnunni eru skilgreind markmið og lykilverkefni sem miða að því að hlúa að líffræðilegri fjölbreytni – bæði innan og utan borgarmarka.

Borgir mikilvægar í baráttunni

Sífellt meiri vilji er meðal almennings og stjórnvalda til að hlúa að og vernda lífverur og umhverfi þeirra. Borgir víða um heim eru í fararbroddi í þeirri vegferð enda eru ákvarðanir um landnotkun og nýtingu náttúruauðlinda veigamiklar á vettvangi þeirra.

Með stefnu Reykjavíkur mun borgin verða virkur þátttakandi í þessu starfi. Þannig er jafnframt stutt við þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á vegum hins Alþjóðlega Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Hvað er verið að gera?

Frá því að stefna borgarinnar var samþykkt hafa ýmis verkefni verið framkvæmd eða eru í undirbúningi. Þar má nefna eftirfarandi:

  • Ný náttúruverndarsvæði í borginni. Akurey í Kollafirði var friðlýst vegna fuglalífs vorið 2019. Í undirbúningi er friðlýsing Lundeyjar. Verndun lífríkis Elliðaaárdals verður fest í sessi með stækkun hverfisverndarsvæðis í tillögu að nýju deiliskipulagi dalsins sem nýlega var auglýst.
  • Lífríki borgarinnar er vaktað vandlega. Þar má nefna fuglalíf á Reykjavíkurtjörn, í Grafarvogi, við Elliðavatn og á fleiri mikilvægum fuglasvæðum.
  • Vel er fylgst með útbreiðslu ágengra plöntutegunda. Þar má nefna hinar varasömu tröllahvannir, en farið hefur verið í ýmsar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu þeirra. 
  • Endurheimt votlendis er mikilvæg aðgerð til að stöðva losun kolefnis en einnig til að bæta búsvæði fugla og annarra lífvera. Fyrsti áfangi endurheimtar votlendis í Úlfarsárdal var framkvæmdur í fyrra og strax má sjá mikinn mun á svæðinu. (Sjá myndir með frétt). Í undirbúningi eru fleiri endurheimtarverkefni.
  • Stefna og aðgerðaáætlun um Græna netið, uppbyggingu grænna innviða í borginni, var samþykkt nýlega. Í sumar fara í framkvæmd fyrstu verkefnin við uppbyggingu Græna netsins. Betur verður greint frá þeim síðar í sumar.
  • Fræðsla um lífríki borgarinnar fer fram víða. Á síðu fræðsluátaksins Reykjavík-iðandi af lífi, eru reglulega fréttir og upplýsingar um lífríkið og fræðsluviðburði. Grasagarður Reykjavíkur býður einnig upp á fræðslu um líffræðilega fjölbreytni fyrir skólahópa og almenning. Fræðsluskilti um náttúru borgarinnar finnast víða. Nýjasta skiltið er við Elliðaárstíflu en væntanleg á árinu eru skilti um fuglalíf í Bryggjuhverfinu og á Kjalarnesi.

Náttúran er með svarið

Þema alþjóðlega dagsins um líffræðilega fjölbreytni í ár er „Náttúran er með svarið“ og er markmiðið með því að vekja athygli á því að náttúran og lífríki jarðar er undirstaða velgengni okkar á jörðinni – við fáum fæðu, klæði, vatn, húsnæði, orku, tækni og aðrar auðlindir beint eða óbeint frá náttúrunni. Án auðlinda náttúrunnar værum við ekki þar sem við erum í dag og við erum enn háð því að heilbrigð náttúra og lífríki sé til staðar.

 Því vekur það furðu að mannkyninu hefur mistekist að nýta hana á sjálfbæran hátt og afleiðingin af því er hratt hnignandi lífríki, röskuð vistkerfi og tegundir í útrýmingarhættu. Það er kominn tími til að snúa þessari þróun við og hlutverk og ábyrgð Reykjavíkur og annarra borga er og verður í brennidepli. Stefnur og aðgerðir stjórnvalda eru grundvöllur góðs árangurs en framlag okkar allra skiptir ekki síður máli. Tökum öll þátt í að ganga vel um náttúruna og tryggja velferð lífríkisins til framtíðar!

Ítarupplýsingar:

Náttúruborgin, stefna Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni.

Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni 2016-2026.