Líflegur réttindadagur í Vesturbæ

Skóli og frístund

""

Fjórir grunnskólar í Vesturbæ, jafn mörg frístundaheimili og ein félagsmiðstöð fengu í dag viðurkenningu UNICEF sem Réttindaskólar og Réttindafrístund. Þetta eru Grandaskóli og frístundaheimilið Undraland, Hagaskóli og félagsmiðstöðin Frosti,  Melaskóli og frístundaheimilið Selið og Vesturbæjarskóli, Skýjaborgir og Frostheimar. 

Hátíðardagskrá var í öllum skólunum þar sem fulltrúar UNICEF afhentu réttindaráðum skólanna og frístundastarfsins viðurkenningu fyrir vel unnin störf en unnið hefur verið að þessu verkefni í rúmt ár.

Í Vesturbæjarskóla lék Skólahljómsveit Vesturbæjar og samsöngur var að lokinni athöfn þar sem fulltrúar í Réttindaráði nemenda og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti ávörp.

Í Melaskóla var samsöngur hjá yngstu bekkjum og miðstigi á sal þegar tekið var á móti viðurkenningu UNICEF en einnig sérathöfn fyrir eldri nemendur. Nemendur í Grandaskóla sungu Imagine fyrir sína gesti og Réttindaráðið tók stolt við sínum viðurkenningum.

Tugir milljóna í góð mál

Hátíðinni á 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lauk svo í Hagaskóla þar sem nemendur höfðu tvöfalda ástæðu til að gleðjast. Í fyrsta lagi afhentu þeir afrakstur af góðgerðarsamkomunni Gott mál til tveggja samtaka sem þeir kusu að styðja að þessu sinni, en alls hafa Hagskælingjar gefið um 25 milljónir króna til góðgerðarmála á undanförnum árum.

Að þessu sinni styrktu þeir annars vegar skólastarf samtakanna Bjartrar sýnar í Kenýa um röska milljón krónur og sama upphæð fór til umhverfissamtakanna Landvernd. Réttindaráð Hagaskóla tók svo við viðurkenningu UNICEF fyrir að innleiða ákvæði Barnasáttmálans í allt skóla- og frístundastarfið. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hrósaði unglingunum fyrir frábært starf og sagði þá hafa sýnt það í verki að þeir skildu ákvæði Barnasáttmálans, bæði heima og að heiman. Þá þakkaði Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF þeim fyrir einstaklega fallegt framlag til barna í þriðja heiminum. 

Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli urðu fyrstu grunnskólarnir í borginni til að verða Réttindaskólar UNICEF á árinu 2017.