Lesið í hross

Mannlíf

""

„Hestamennska er fullkomin núvitund. Þegar ég kem hér upp brekkuna, sé hesthúsið, opna hurðina og finn ilminn, dásamlegt.  Ég les í líðan hrossanna, eru þau hvíld? Líður þeim vel? Er einhvers spenna á milli þeirra? Svo skipti ég yfir í reiðföt, kembi reiðhrossið mitt, hann Prins, áður en ég legg á hann hnakkinn, festi beislið og teymi hann út. Þegar út er komið er það bara ég, hesturinn og náttúran. Hugurinn er hér og nú og ekkert annað truflar mig.“ Svona lýsir Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir ferðum sínum í hesthúsið en þangað fer hún daglega eftir vinnu. 

Hún kynntist hestamennsku í sveit sem barn en það var svo fyrir um áratug að hún lét gamlan draum um hestamennsku rætast og þar hafði yngri dóttir hennar mikil áhrif.  Hún var þá tíu ára og hestamennskan hafði svo góð áhrif á hana félagslega. Fyrst fengu þær lánaða hesta einn vetur og sportið sló í gegn hjá þeim báðum. Sigurlaug settist á skólabekk og lærði reiðmanninn á Hvanneyri. Dóttirin hefur hins vegar farið langt fram úr mömmu sinni en hún bæði temur, þjálfar og keppir.  Maki Sigurlaugar og eldri dóttir eru ekki í hestamennsku en fara engu að síður með á landsmót og heimsmeistaramót og saman stundar fjölskyldan skíði.  

„Hestarnir eru ólíkir hver öðrum eins og við mannfólkið og maður lærir að umgangast þá út frá persónuleika hvers og eins. Það skapast sterk tengsl milli hests og knapa,“ segir Sigurlaug. „Á milli hests og knapa skapast einstætt samband og á milli þeirra sem deila ástríðu sinni á hrossum skapast vinátta og samkennd.  Allir gegna hlutverki. Í lengri hestaferðum til dæmis þarf einhver að leiða hópinn og einhver hefur það hlutverk að reka lestina. Það þarf að vera kerra með ef eitthvað kemur fyrir hrossin. Einhver þarf að kunna að járna ef þess þarf. Svo þarf einhver að sjá um matinn og annar sem sér um að vera á bíl og vera viðbúinn því ef að knapi slasast eða þarf á hvíld að halda. Allt byggist á samvinnu.

Hestamennskan hefur fært mig nær fólki og kennt mér ótal margt um mannleg samskipti. Að fara á hestbak og spretta úr spori hjálpar mér að hreinsa hugann og takast endurnærð á við ný verkefni í leik og í starfi,“ segir Sigurlaug.

Sigurlaug Anna er sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Ráðhúss Reykjavíkur þar sem hún sér um verkefni er varða íbúalýðræði.  #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni