Leitað leiða til að styrkja stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi | Reykjavíkurborg

Leitað leiða til að styrkja stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi

miðvikudagur, 24. janúar 2018

Starfshópur á að rýna starfsskilyrði stjórnenda. 

  • Skólasetning
    Skólasetning í Norðlingaskóla á liðnu hausti. Sif Vígþórsdóttir skólastjóri ávarpar foreldra og börn.

Skóla- og frístundaráð samþykkti í dag tillögu meirihlutans um að efna til formlegs samstarfs við félög skólastjórnenda, háskóla og Samband íslenskra sveitarfélaga um leiðir til að styrkja faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi og gera stjórnendastörf eftirsóknarverðari. Stofnaður verður starfshópur til að greina starfsumhverfi þeirra, þ.e. verkaskiptingu stjórnenda innan stofnana, stjórnunarumfang og álagsþætti og setja fram tillögur að aðgerðum sem fela í sér aukið svigrúm fyrir þá til að sinna hlutverki sínu sem faglegir leiðtogar.

Félag skólastjórnenda óskaði eftir því að farið yrði í slíka rýna í kjölfar þess að starfshópur fór ofan í kjölinn á starfsumhverfi grunnskólakennara í borginni og setti fram fjölmargar tillögur til úrbóta.

Starfshópurinn sem rýnir starfsumhverfi stjórnenda verður skipaður fulltrúum skóla- og frístundaráðs, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, stjórnenda í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, Háskóla Íslands og sérfræðingum skóla- og frístundasviðs.