Leitað leiða til að gera hagkvæmari innkaup

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í dag að ráðast í átak til að auka hagkvæmni í innkaupum á rekstrarvörum þeirra starfsstaða sem heyra undir skóla- og frístundasvið; leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva.

Í greinargerð með tillögu Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er yfirlit yfir helstu vöru- og þjónustukaup sviðsins sem yfirfarin verða með tilliti til hagkvæmari innkaupa, s.s. hráefni fyrir skólamötuneyti, skólagögn, hreinlætisvörur, tæki, skrifstofuvörur og ýmsar aðrar rekstrarvörur.

Þá segir í greinargerð að góður árangur í nýafstöðnu útboði á námsgögnum fyrir grunnskólanemendur hvetji til þess að rýnt verði frekar hvaða tækifæri liggi í hagkvæmari innkaupum. Listaverð á vörum sem fóru í útboð var um 150 milljónir. Tilboði frá A4 var tekið en það hljóðaði upp á um 40 milljónir króna og fól í sér 73% afslátt frá verðlistaverði.

Sú ákvörðun borgarinnar að bjóða út skólagögn og greiða með útsvarstekjum felur því sannarlega í sér mikinn stuðning við heimilin og sýnir að með sameiginlegum stórinnkaupum má lækka þessi útgjöld verulega.  

Hjá Reykjavíkurborg eru innkaup á ábyrgð hvers fagsviðs. Með innkaupum þvert á svið og stofnanir borgarinnar felast tækifæri til að lækka kostnað enn frekar.