Leikvellir og torg í miðborginni

Umhverfi

Kort af torgunum okkar.

Fjölskyldur eiga sér marga samastaði í miðborg Reykjavíkur en búið er að gera kort af leikvöllum og torgum miðborgarinnar til að hjálpa fjölskyldufólki að skipuleggja miðborgarferðina. Góð veðurspá er fyrir helgina og um að gera að kíkja á einhver af þessum svæðum.

Leikvöllurinn við Arnarhól er til dæmis skemmtilegur og en líka er hægt að setjast niður í lautarferð í grasinu. Leikvöllur fyrir yngstu börnin er við Bernhöftstorfuna og þar eru enn fremur mörg sæti fyrir fullorðna, til dæmis nýju tröppuborðin, hengirúm og hefðbundnari borð og stólar. Fólk á öllum aldri getur á sama stað gripið í borðtennisspaða og tekið einn leik.

Annað borðtennisborð er á Miðbakkanum en þar eru til viðbótar körfuboltakörfur, fyrir stóra og smáa að ógleymdum hjólabrettagarðinum. Hann býður upp á marga möguleika fyrir þá sem eru á hjólabrettum en það er ekki síður gaman að fylgjast með brettafólkinu leika listir sínar. Á Miðbakkanum eru einnig nokkur borð með bekkjum og því góð aðstaða fyrir þá sem kjósa að taka með sér nesti.

Torg miðborgarinnar eru skemmtilega ólík og ný hafa bæst við á síðustu misserum. Má þar nefna Boðatorg með sínum skemmtilega skrúfuhring en þar er stutt í Slippinn og höfnina. Óðinstorg er annað torg þar sem mannlífið fær að njóta sín svo eitthvað sé nefnt.

Hljómskálagarðurinn býður síðan upp á bæði leik og slökun og allir ættu að hafa gaman af því að skoða sig um í styttugarðinum við Safn Einars Jónssonar. Börn hafa skemmt sér á göngugötunum í sumar en bæði parísinn og hlaupabrautin á Laugaveginum hafa höfðað til þeirra.  Það er því tilvalið að taka þar á sprett og kíkja svo í slakandi umhverfið í gróðurhúsinu á Lækjartorgi.