Leikskólastarf í Reykjavík verðlaunað

Skóli og frístund

Verðlaunahafar ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta.

Leikskólinn Rauðhóll og leikskólakennarinn Elísabet Ragnarsdóttir á leikskólanum Heiðarborg í Reykjavík voru meðal þeirra sem hlutu Íslensku menntaverðlaunin 2022. Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum og í tveimur þeirra var það leikskólastarf í Reykjavík sem hlaut verðlaun.

Framúrskarandi leikskólastarf og framúrskarandi kennari

Leikskólinn Rauðhóll í Reykjavík hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi leikskólastarf eða menntaumbætur, fyrir fagmennsku og gæði í leikskólastarfi sem og öflug þróunarstarf. Elísabet Ragnarsdóttir leikskólakennari og aðstoðarleikskólastjóri var verðlaunuð fyrir að vera framúrskarandi kennari og sýna einstaka fagmennsku en hún starfar við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík.

Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlaut þróunarverkefnið Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar sem beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi. Verðlaun fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun fékk Tækniskólinn fyrir átaksverkefnið #kvennastarf sem unnið hefur verið á hans vegum í samvinnu við aðra iðn- og verkmenntaskóla og beinst hefur að því að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum. Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2022 hlaut svo Menntaskóli Borgarfjarðar fyrir framsækna endurskoðun á námskrá með það að leiðarljósi að búa nemendur sem best undir áskoranir í lífi og starfi í nútíð og framtíð.

Elísabet grípur frumkvæði barnanna og ýtir undir námsáhuga þeirra

Í einni umsögninni um Elísabetu segir:

„Skapandi starf ræður ríkjum í kringum Elísabetu og alltaf á forsendum og áhuga barnanna. Öll börn fá tækifæri til að njóta styrkleika sinna í návist hennar. Föndur úr verðlausum efnivið verður að ryksugum, flugvélum, jólaþorpi, allt eftir því hverju börnin hafa áhuga þá stundina. Sögur og ljóð vakna til lífsins í leikritum, skuggaleiksýningum eða brúðuleikhúsum. Þegar áhugi og frumkvæði barnanna eru gripin á þann hátt sem Elísabet gerir, eykst námsáhugi þeirra og þau finna að þau hafa eitthvað með nám sitt að segja. Þegar áhugi kviknar á sólkerfinu eða eldgosum, er hann gripinn og unnið er með hann í samverustundum, útiveru, listsköpun, frjálsum leik og hvenær sem tækifæri gefst … Ef erfið atvik koma upp í barnahópnum getur hún tekið á þeim samdægurs með ótrúlegri fagmennsku og frjórri hugsun. Hún grípur bók til að lesa, spinnur sögu, grípur persónubrúðurnar og nýtir námstækifærið um leið og það kemur upp.“

Grunnur lagður að því að börnin læri að þekkja sig sjálf

Í umsögn um leikskólann Rauðhól segir meðal annars.

„Leikskólinn er þekktur fyrir samstarf starfsfólks á grundvelli gleði, jákvæðni og sveigjanleika auk þess sem hugmyndir um flæði í leik og starfi hafa verið raungerðar í starfi leikskólans í þróunarverkefninu Rauðhólsgleðin þar sem unnið var að þróun leiks og námsumhverfis innan dyra sem utan með hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæðið að leiðarljósi. Með því að skipuleggja námsumhverfi og viðfangsefni barna út frá kenningum hans er lagður grunnur að því að börnin læri að þekkja sig sjálf, móta sína eigin sjálfsmynd og finna út sín áhugasvið.“