Leigjendur Brynju fá afturvirkar húsaleigubætur

Velferð

""

Borgarráð samþykkti í gær hækkun á fjárhagsáætlun velferðarsviðs vegna afturvirkra greiðslna sérstakra húsaleigubóta ásamt dráttarvöxtum til leigjenda hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalags Íslands. Þessi ákvörðun er tekin eftir skoðun og greiningu velferðarsviðs á rétti leigjenda til greiðslna í kjölfar dóms Hæstaréttar nr. 728/2015.

Á fundi borgarráðs þann 3. maí 2018 var samþykkt tillaga borgarstjóra um að fela velferðarsviði Reykjavíkurborgar að afgreiða kröfur um greiðslu sérstakra húsaleigubóta frá leigjendum Brynju án tillits til þess hvort að umsókn hafi legið fyrir. Þá var velferðarsviði einnig falið að greiða dráttarvexti til þeirra sem eiga rétt á greiðslum sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann. Vinna velferðarsviðs leiddi í ljós að um 520 einstaklingar eigi rétt á afturvirkri greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

Í byrjun nóvember munu leigjendur hjá Brynju fá bréf þar sem fram kemur hvort viðkomandi eigi rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta og dráttarvaxta aftur í tímann ásamt útreikningi.

Stefnt er að því að greiðsla fari fram um miðjan nóvember. 

,,Ég fagna því innilega að réttlætið sé hér fram að ganga og að allir sem eigi rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi vegna Brynjumálsins, hvort sem þeir hafi sett inn umsókn eða ekki, séu loks að fá sinn rétt uppfylltan og það með dráttarvöxtum. Hér sýnum við svart á hvítu að rétt skal vera rétt og að ekkert skal út af bera hvað það varðar. Reykjavíkurborg er metnaðarfull hvað velferðarmálin varðar og við viljum að öllum líði hér vel“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar.

Samþykkt borgarráðs í dag felur í sér hækkun á fjárhagsáætlun velferðarsviðs um 486 milljónir króna. Þar af eru 228 milljónir vegna greiðslu afturvirkra sérstakra húsaleigubóta og 175 milljónir vegna greiðslu dráttarvaxta. Áætlað er að kostnaður vegna sérstaks húsnæðisstuðnings verði allt að 66 milljónir en hluti þeirra sem eiga rétt á afturvirkum greiðslum sérstakra húsaleigubóta eiga einnig rétt á  sérstökum húsnæðisstuðningi samkvæmt lögum og reglum sem tóku gildi 1. janúar 2017 og mun útreikningur vegna þeirra greiðslna fara fram í kjölfarið.