Laufásborg flaggar Menningarfánanum

Skóli og frístund Mannlíf

""

Menningarfáni Reykjavíkurborgar var veittur í annað sinn á Barnamenningarhátíð sl. vor. Að þessu sinni fékk leikskólinn Laufásborg fánann fyrir framúrskarandi menningarstarf.

Miðvikudaginn 11. júní fagnaði leikskólinn þessu og tók á móti viðurkenningu og verðlaunum sem fylgja Menningarfánanum. Við þetta tilefni sungu börnin lag eftir Valgeir Guðjónsson, sem þau hafa verið í samstarfi við, og fluttu rímur, sem þau hafa lært að flytja hjá Steindóri Andersen.

Til þess að geta hlotnast Menningarfána þarf leikskóli, skóli eða frístundaheimili að vera með skýra menningarstefnu. Laufásborg er með skýra stefnu og allt starf miðast að því að að því að börnin verði skapandi einstaklingar sem njóti lista og menningar í sínu daglega lífi.

Leikskólinn hefur leitað eftir samstarfi við listamenn og menningarstofnanir en má þar nefna samstarf við Skuggaleikhús, Bíó Paradís, Airwaves, Valgeir Guðjónsson, Steindór Andersen og Evu Maríu Jónsdóttur.  Einnig taka börnin  þátt í Barnamenningarhátíð, fara á listasöfn, Sinfóníutónleika og sækja viðburði sem menningarstofnanir borgarinnar bjóða upp á.

Leikskólinn fékk, auk fánans, viðurkenningu í formi styrks til að vera með leiklistarnámskeið fyrir börnin á leikskólanum

Í lok fallegrar athafnar með börnum og starfsfólki leikskólans afhenti verkefnastjóri barnamenningar verðlaunin og börnin fengu sápukúlur sem gera hversdaginn fallegan og skemmtilegan.