Látinna embættismanna minnst í borgarstjórn

Arna Schram Ljósmynd: Rut Sigurðardóttir
Arna Schram

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, minntist tveggja embættismanna borgarinnar í upphafi borgarstjórnarfundar í gær 18. janúar. Í minningarræðu sinni fór Dagur yfir störf og feril Örnu Schram, sviðsstjóra menningar og ferðamálasviðs sem lést 11. janúar síðastliðinn og Egils Skúla Ingibergssonar, fyrrverandi borgarstjóra, sem lést 22. desember 2021.

„Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs, fæddist 15. mars 1968 og lést langt, langt um aldur fram. Ég veit að ég mæli fyrir munn okkar allra þegar ég segi að það var okkur öllum áfall og óumræðilega sorglegt að fá fréttir af andláti Örnu. Hún geislaði af lífsvilja og sínum meðfædda metnaði og krafti, líka undanfarin misseri þegar hún háði mjög hart stríð við krabbamein eins og við vorum mjög meðvituð um. Hún var bjartsýn um jólin og lagði drög að því að koma til baka og stýra menningar- og ferðamálasviði. Við sem umgengumst hana og vorum í sambandi fundum auðvitað að meðferðin hafði sannarlega tekið á hana en við deildum hennar bjargföstu trú og hlökkuðum til að fá hana til baka. Ég hitti Örnu um jólaleytið og þá var hún með eftirvæntingu í svipnum og alveg eins og þegar hún gekk til liðs við borgina fyrir fimm árum til að leiða menningar- og ferðamálin var hún jafn uppfull af nýjum hugmyndum og krafti og þá.

Arna ólst upp í Vesturbænum og var lengi blaðamaður og kom með margþætta reynslu inn í yfirstjórn borgarinnar. Hún var alltaf vakandi yfir verkefnum dagsins, einbeitt og áræðin og náði eins og við þekkjum ótrúlegum árangri í verkefnum sínum. Hún brann fyrir starfi sínu. Það er gríðarlegur missir fyrir borgina og menningarlífið að henni. Hugur okkar er að sjálfsögðu hjá Birnu dóttur Örnu og vinum hennar og fjölskyldu en missir þeirra er gríðarmikill eins og borgarinnar. Það er með mikilli sorg sem við kveðjum Örnu því að við erum miklu fátækari að fá ekki notið krafta hennar, samveru og vináttu. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Ég vil einnig minnast Egils Skúla Ingibergssonar fyrrum borgarstjóra sem lést 22. desember síðastliðinn 95 ára að aldri. Egill Skúli fæddist í Vestmannaeyjum  23. mars 1926 og ólst þar upp til 17 ára aldurs. Hann lagði stund á nám í Verslunarskóla Íslands, lauk stúdentsprófi þaðan og lauk raunar einnig stúdentsprófi samhliða frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann nam verkfræði við Háskóla Íslands og lauk meistaragráðu í verkfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1954. Hann kom víða við á fjölbreyttum starfsferli en árið 1978 var hann ráðinn borgarstjóri í Reykjavík og gegndi því starfi í tíð vinstri meirihlutans sem var við völd í borginni fram til ársins 1982. Fyrir og eftir borgarstjórnartíð sína vann hann hjá Rafteikningu og gegndi fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum, var meðal annars formaður Verkfræðingafélags Íslands um skeið, í forystu Velunnarafélags Borgarspítalans og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Lionsklúbbinn Fjölni í nokkur ár. Eiginkona Egils Skúla var Ólöf  Elín Davíðsdóttir húsmóðir. Þau hjónin láta eftir sig 4 börn, 14 barnabörn og 21 barnabarnabarn.  Fyrir hönd borgarstjórnar sendi ég fjölskyldu og vinum Egils Skúla innilegar samúðarkveðjur og þakka fyrir framlag hans í þágu borgarinnar og okkar allra“.

Að loknum minningarorðum bað borgarstjóri borgarstjórn um að lúta höfði í eina mínútu og minnast þeirra.