Lærum og leikum með hljóðin

Skóli og frístund

""

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur gaf í dag öllum leikskólum borgarinnar námsefni undir heitinu Lærum og leikum með hljóðin, efni sem byggir á fagþekkingu talmeinafræðinnar, rannsóknum og reynslu af því að vinna með börnum, foreldrum og fagfólki skóla. Efnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar. 

Bryndís hefur starfað í rúm 30 ár sem talmeinafræðingur og í tilefni af þeim tímamótum í starfi gefur hún í samstarfi við fyrirtæki og einstaklinga öllum leikskólum í landinu málþjálfunarefið Lærum og leikum með hljóðin. Efnið styður með ýmsu móti við læsi og hljóðnám og leggur grunn að lestrarnáminu. Í gjafatöskum sem fara í sérhvern leikskóla í landinu er ýmislegt efni sem kennir framburð hljóða, styrkir hljóðavitund og þekkingu á bókstöfum, þjálfar hljóðkerfisþætti og eykur orðaforða og hugatakaskilning. Einnig munu fimm íslensk smáforrit fyrir iPad vera gefin samhliða til allra skóla og foreldra íslenskra barna.

Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu tók við gjöfinni á fundi leikskólastjóra borgarinnar í dag og þakkaði Bryndísi og stuðningsaðilum hennar hjartanlega fyrir þetta framlag til leikskólanna.