Kynning á samgöngum á Vatnsmýrarsvæði | Reykjavíkurborg

Kynning á samgöngum á Vatnsmýrarsvæði

fimmtudagur, 5. júlí 2018

Samstarfshópur um bættar samgöngur á Vatnsmýrarsvæðinu hefur skilað drögum að skýrslu sem kynnt var fyrir borgarráði í dag, 5. júlí, þar sem fjallað er um fjölmargar lausnir á samgöngumálum svæðisins.

  • Vatnsmýri, göngu- og hjólastígur við Háskóla Íslands.
    Vatnsmýri, göngu- og hjólastígur við Háskóla Íslands.
  • Vatnsmýri og nágrenni hefur verið skipt upp í 15 reiti/svæði, Nöfn á reitunum gefa til kynna staðsetningu þeirra.
    Vatnsmýri og nágrenni hefur verið skipt upp í 15 reiti/svæði, Nöfn á reitunum gefa til kynna staðsetningu þeirra.

Samstarfshópurinn hóf störf haustið 2017 en í honum eru fulltrúar Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Landsspítalans.

Hópurinn hafði það verkefni að skilgreina sameiginleg úrlausnarefni sem tengjast samgöngum á svæðinu.

Ljóst er að samgönguyfirvöld, borg og ríki, og stærstu vinnustaðirnir á Vatnsmýrarsvæðinu standa frammi fyrir þeirri sameiginlegu áskorun að mæta fyrirsjáanlegum vexti í samgöngum á skilvirkan, hagkvæman og vistvænan hátt.  Ráðast þarf í margþættar innviðafjárfestingar og samgönguaðgerðir til að mæta auknum samgöngum á svæðinu og er mikilvægt að stigin verði stór og markviss skref til að bæta samgöngur.

Áætlaður ferðafjöldi á virkum degi er núna 24 þúsund á Vatnsmýrarsvæðinu en áætlað er ferðum fjölgi upp í 45 þúsund á sólarhring árið 2025 með fyrirhugaðri fjölgun starfa og íbúa.

Hópurinn leggur fjölmargar tillögur til að gera samgöngur á svæðinu skilvirkari og fjölbreyttari. Lagt er til að strax verði hafin undirbúningsvinna að því hefja byggingu vegstokks við Miklubraut frá Snorrabraut og austur fyrir Kringluna. Samhliða verði unnið að greiningu á Öskjuhlíðargöngum.

Þá verði ráðist strax í ýmsar minni aðgerðir til að bæta umferðarflæði á svæðinu.

Lagt er til að Strætó ferðist í sérrými á leiðum sínum að og frá Vatnsmýrinni svo almenningssamgöngur verði greiðari á svæðinu.

Þá er hvatt til þess að uppbyggingu Borgarlínu eða sambærilegum úrbótum á innviðum almenningssamgangna í nágrenni Vatnsmýrar verði að fullu lokið fyrir árið 2025.

Sérstök áhersla er lögð á að hraðað verði uppbyggingu brúar milli Vatnsmýrar og Kársness fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi ásamt tengingum fyrir þessa ferðamáta suður fyrir flugbrautarenda. Einnig verði byggðar sérreinar fyrir almenningssamgöngur milli brúar og Hringbrautar til að fullnýta ávinning nýrrar tengingar milli Kársness og miðborgar.

Auk þessa verði hugað að því að greiða fyrir umferð gangandi og hjólandi að svæðinu með bættu stígakerfi fyrir báða ferðamáta.

Hópurinn leggur til að deilibíla- og deilihjólaleigur verði í boði við vinnustaðina, sem geri samninga um afsláttarkjör. Þá verði fólki umbunað með markvissum hætti fyrir að hafa samflot á einkabílum.

Líka er lagt til að vinnustaðirnir fari í sameiningu af stað með tilraunaverkefni með útlán á rafhjólum til starfsmanna.

Drög að skýrslu samstarfshóps um bættar samgöngur á Vatnsmýrarsvæðinu