Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun leiðir til jafnréttis

""

Stýrihópur um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun stofnaði í byrjun síðasta árs starfshóp til að yfirfara og endurskipuleggja verklag og framkvæmd jafnréttisskimunar og jafnréttismats í starfsemi Reykjavíkurborgar. Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og borgarráð samþykkti allar tillögur hópsins á fundi sínum í gær, 20. janúar.

Jafnréttishugsun hluti af stofnanamenningu borgarinnar

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun (KFS) er framkvæmd hjá borginni í því skyni að stuðla að jafnrétti og betri nýtingu fjármuna. Með því að auka gagnsæi og varpa ljósi á ólíka stöðu og þarfir fólks er stuðlað að því  að opinbert fé sé notað til að stuðla að jafnrétti. Framkvæmd jafnréttisskimana og jafnréttismats taka mið af mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum um stjórnsýslu jafnréttismála og evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum.

Starfshópurinn leggur til átján tillögur í átta flokkum. Þar er m.a. lagt til að viðmiðunarfjárhæð viðauka sem undanskildir eru jafnréttisskimun sé sett við fjórar milljónir og  Þá er lagt til að  rafvæða eyðublöð vegna jafnréttisskimunar til að auðvelda skráningar og úrvinnslu. Bæta á leiðbeiningar og auka fræðslu um jafnréttisskimun og gerð jafnréttismats.  Einnig er lagt til að útbúa sniðmát fyrir jafnréttismöt með það að markmiði að samræma og auðvelda vinnslu þeirra. Starfshópurinn leggur til skýrari ábyrgð- og verkaskiptingu. Hópurinn telur mikilvægt að fram fari eftirlit og skipulegri endurgjöf til starfsmanna og starfshópa sem bera ábyrgð á jafnréttisskimun og -mati. Lagt er til að verkefnisstýra KFS flytji ótímabundið á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Bæta þarf aðgengi starfsfólks að gögnum um KFS á innri miðlum borgarinnar og uppfæra þarf verklagsreglur um KFS og reglur um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar með hliðsjón af áherslum kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Að lokum leggur hópurinn til að ferli jafnréttisskimana og jafnréttismata verði teiknað upp með skýrum hætti.

Starfshópurinn gerir ekki ráð fyrir því að tillögurnar leiði til kostnaðarauka vegna innleiðslu þeirra, nema ef vera kynni útfærsla á rafvæðingu eyðublaðs sem gæti leitt af sér kostnað.

Framkvæmd KFS hefur mikið undir því að ákveðin jafnréttishugsun sé hluti af stofnanamenningu borgarinnar. Starfshópurinn leggur áherslu á að jafnréttisskimanir, og eftir atvikum jafnréttismöt, séu ætíð framkvæmd áður en tillögur eru samþykktar. Hópurinn telur einnig mikilvægt að dýpka innihald skimana en það gerist bara með aukinni sérþekkingu á jafnréttismálum þvert á borgina. Fagsviðin vinna jafnréttisskimanir og jafnréttismöt en á endanum liggur ákvarðanatakan hjá pólitíkinni. Því er að mati hópsins stjórnmálafólk lykilaðilar ef tryggja á að verkefnið skili tilætluðum árangri.