Kraumandi menningardeigla í Fellaskóla

Skóli og frístund

""
Menningarmót var haldið í 8. bekk í Fellaskóla í morgun. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kom af því tilefni í heimsókn í gamla skólann sinn. 

Þetta er tíunda árið í röð sem menningarmót er haldið í Fellaskóla en vandfundinn er sá skóli í landinu sem státar af jafn mikilli fjölmenningu. Hátt í fjörutíu tungumál eru töluð í skólanum þar sem sjö af hverjum tíu nemendum eiga annað móðurmál en íslensku. 

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sleit barnsskónum í Fellahverfinu og heimsótti gamla skólann sinn í morgun. Hún rifjaði upp sín skólaár og sagði sér afar minnisstætt hversu margir frábærir kennarar hefðu starfað í Fellaskóla þegar hún var þar nemandi. Þá sagðist hún búa að þeirri reynsla alla tíð að hafa verið í skólanum og síðasta árið sem formaður í nemendafélaginu. Sú reynsla nýttist henni enn, ekki síst sem ráðherra mennta- og menningarmála. 

Kristin R. Vilhjalmsdóttir innleiddi menningarmót í grunnskólum borgarinnar og opnaði hún mótið í Fellaskóla í morgun með nemendum sem buðu gesti velkomna á hinum ýmsu tungumálum sem töluð eru í skólanum. Síðan var haldið í kennslustofu 8. bekkjar þar sem nemendur höfðu stillt upp ýmsum munum og myndum til að varpa ljósi á áhugamál sín og menningarbakgrunn.