Könnun á öryggisupplifun hjólreiðafólks

Samgöngur

Hjólabrú yfir Elliðaá

70% þátttakenda hafa aðgengi að hjóli, samgöngusamningur virðist vera marktækur hvati fyrir hjólreiðum, karlar hjóla oftar en konur. 15,7% þátttakenda segja að veður hafi frekar eða mjög lítil áhrif ákvörðun um að hjóla. Þetta og fjölmargt fleira kemur fram í könnun á öryggisupplifun hjólreiðamanna í Reykjavík sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg.

Sigrún Birna Sigurðardóttir, Cand. Psych & PhD í samgöngu- og umhverfissálfræði kynnti niðurstöður könnunar á öryggisupplifun höfuðborgarbúa á hjólastígum í Reykjavík á Velo-city ráðstefnunni í Dublin föstudaginn 28.júní 2019. En þar má finna margar áhugaverðar niðurstöður.

Í þessari könnun var markmiðið að varpa ljósi á öryggisupplifun og viðhorf hjólreiðamanna í Reykjavík. Aðferðarfræðin dregur dám af sambærilegri gagnaöflun sem framkvæmd er í árlegu hjólreiðauppgjöri af hálfu Kaupmannahafnarborgar.

Verkefnið er liður í hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2015-2020 og stendur til að endurtaka það annað hvert ár til þess að fylgjast með þróun öryggisupplifunar Reykvíkinga á meðan borgin byggir innviði sína.

Verkefnið var tvíþætt, annars vegar var um viðhorfskönnun um að ræða sem var lögð fyrir íbúa í Reykjavík í Þjóðgátt Maskínu og fengust 1135 gild svör. Hins vegar var um vettvangskönnun að ræða sem fór fram á hjólreiðastígnum við Fossvoginn, vestan Kringlumýrarbrautar og fengust þar 216 svör frá hjólreiðamönnum. Vettvangskönnunin speglar spurningar úr viðhorfskönnuninni sem var víðtækari.

Niðurstöður benda til þess að karlar hjóli oftar en konur. Þetta má sjá í báðum könnunum. Í viðhorfskönnuninni eru tæp 33% karla sem hjóla vikulega eða oftar á móti tæplega 24% kvenna og er munurinn marktækur. Í vettvangskönnuninni eru mun fleiri karlar í úrtaki, eða rúmlega 73% þátttakenda. 

Samgöngusamningar skipta máli

Samgöngusamningur virðist vera marktækur hvati fyrir hjólreiðum, en í viðhorfskönnun voru rúm 48% þeirra sem hjóla vikulega eða oftar með samgöngusamning, en þó voru tæp 25% sem hjóluðu vikulega eða oftar án samgöngusamnings. Í vettvangskönnuninni voru rúm 46% með samgöngusamning en þó voru rúm 47% sem hjóluðu þrátt fyrir að hafa ekki samning, auk þess voru um 6,5% sem höfðu ekki aðgengi að slíkum samning. 

Spurt var um aðalferðamáta í viðhorfskönnun og kom í ljós að hjólið var aðalferðamáti rúmlega 8% þátttakenda. Tæp 70% þátttakenda hafa aðgengi að hjóli. Aðspurð um áhrif veðurfars á þá ákvörðun að hjóla segja 15,7% þátttakenda að veður hafi frekar eða mjög lítil áhrif, en 48% segja að það hafi frekar eða mjög mikil áhrif á hjólreiðar, en þessa spurningu fengu þeir sem hjóluðu einu sinni í mánuði eða oftar. 

Spurt var um tíðni ferða með mismunandi tilgangi (til eða úr vinnu/skóla, fylgja/hjóla með barni/börnum, sinna erindum og til afþreyingar). Við valmöguleikann „1-7 sinnum í viku“ voru karlar í meirihluta á öllum ferðum í viðhorfskönnun og var þessi munur marktækur fyrir allar ferðir nema fylgja barni/börnum. Í vettvangskönnun voru 73% tæp á leið í eða úr vinnu og 5,6% á leið í eða úr skóla. Ekki var marktækur munur á milli kynjanna. Þátttakendur í vettvangskönnun voru einnig spurðir hversu oft þeir hjóluðu um stíginn við Fossvoginn og var meirihluti eða 86,5% sem fór fremur eða mjög oft þar um, 8,3% fór stundum þar um en 5% sjaldan eða fremur sjaldan um þann stíg. 

Greiðfær og örugg leið er vinsæll kostur

Þegar kemur að umhverfiseiginleikum voru þátttakendur í viðhorfskönnuninni beðnir um að velja eiginleika sem skiptu máli við val þeirra á hjólaleið og fengu þátttakendur lista sem þeir gátu valið að hámarki sex atriði. Greiðfær leið fékk flest atkvæði en á eftir fylgdu: örugg leið, vel þjónustuð, um hjólastíg í sérrými og fljótleg. Öll þessi atriði fengu yfir 200 atkvæði. Þátttakendur í vettvangskönnun fengu sömu atriði og þá var eiginleikinn að leiðinn væri fljótleg sú vinsælasta, en á eftir komu leið um hjólastíg í sérrými, greiðfær og örugg.

Í vettvangskönnuninni skráðu spyrlar hjá sér hvort þátttakendur notuðu hjálm og sýnileikafatnað, en rúm 91% hjólreiðamanna voru með hjálm og rúm 47% notuðu sýndarleikafatnað. Þegar spurt var um hjálmnotkun í viðhorfskönnuninni meðal þeirra sem hjóla, voru rúm 76% þátttakenda sem sögðust nota hjálm fremur eða mjög oft og tæp 40% þátttakenda sögðust nota sýnileikafatnað fremur eða mjög oft. Rúm 70% notar hjólaljós fremur eða mjög oft og 41% notar vetrardekk fremur eða mjög oft. Í viðhorfskönnuninni var eingöngu marktækur munur á notkun kynjanna á vetrardekkjum þar sem karlar voru líklegri til að nýta þau umfram konur.

97% upplifa öruggi í Fossvogi

Öryggisupplifun þátttakenda í viðhorfskönnun var mæld með því að spyrja „hversu óörugg/ur eða örugg/ur finnst þér þú vera þegar þú hjólar um í Reykjavík almennt“og gátu þátttakendur svarað á fimm punkta skala frá „mjög óöruggur“ til „mjög öruggur“. Telja rúm 54% sig vera frekar eða mjög örugga en tæp 12% telja sig frekar eða mjög óörugga. Ekki reyndist marktækur munur á milli kyns né aldurs, þó reyndist munur á milli notendahópa þar sem þeir sem hjóla minnst eru oftar frekar eða mjög óöruggir.

Í kjölfar þessarar spurningar var spurt hvort að óöryggi hafi verið ástæða þess að viðkomandi hafi valið sér annan ferðamáta en hjólreiðar og segja rúm 18% að það hafi gerst stundum til mjög oft. Var marktækur munur við kyn þar sem óöryggi virtist hafa oftar áhrif á val á ferðamáta kvenna. Að lokum voru þátttakendur beðnir um að meta hvort að tiltekin atriði sem tengdust annars vegar innviðum og hins vegar hegðun og þekkingu annarra vegfarenda, gætu bætt öryggisupplifun viðkomandi. Gátu þátttakendur valið allt að 5 atriði af hvorum lista fyrir sig auk þess að skrifa um önnur atriði í opnum svarmöguleika. Fleiri aðskildir hjólastígar og aðrir möguleikar yfir þveranir fengu flest atkvæði hvað innviði varðar en aukin tillitssemi milli ólíkra ferðamáta og betri þekking á því hver á réttinn í umferðinni voru þau atriði sem fengu flest atkvæði hvað hegðun og þekkingu varðar.

Þátttakendur telja sig afar örugga þegar hjólað er við stíginn við Fossvoginn en rúm 97% en hins vegar fellur þetta hlutfall niður í 60% þegar spurt er um öryggisupplifun þegar hjólað væri um almennt í Reykjavík.

Vinningshafar í könnun

Dregnir voru út vinningshafar meðal þeirra sem tóku þátt í könnuninni og fengu þeir gjafabréf að upphæð 10. þúsund krónur. Þau voru: Halla Þorvaldsdóttir, Magni R. Sigurðsson, Guðrún Kristín Sigurgeirsdóttir, Örn Haraldsson, Helen María Vilhjálmsdóttir, Finnur Helgi Malmquist, Þorleifur Þorleifsson, Sindri Helgi Ásbjörnsson, Ebenezer Þórarinn Böðvarsson, Guðjón Gunnarsson.

Tengill

Skýrsla um Öryggisupplifun hjólreiðamanna í Reykjavík