Kona á skjön | Reykjavíkurborg

Kona á skjön

þriðjudagur, 16. janúar 2018

Þann 20. janúar næstkomandi opnar sýning í Borgarbókasafninu/Menningarhúsinu Grófinni um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi.

  • Guðrún frá Lundi rithöfundur
    Rithöfundurinn Guðrún frá Lundi

Rithöfundaferill Guðrúnar frá Lundi er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast á einni nóttu og bækur hennar tróna á toppi vinsældarlista í rúma tvo áratugi. Guðrún var orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsaga hennar kom út, en þær áttu eftir að verða tólf talsins í fjölmörgum bindum.

Þetta er þeim mun meira afrek í ljósi þeirra hindrana sem alþýðukonur stóðu almennt frammi fyrir á þessum tíma. Bústörf og barnauppeldi stóðu í vegi fyrir ritstörfum og ritvöllurinn var að mestu karlanna. Guðrún frá Lundi var dáð af stórum hluta þjóðarinnar þótt sumir raddsterkir áhrifamenn flokkuðu verk hennar með erlendum afþreyingarbókmenntum og reyfararusli.

Á sýningunni verður hægt að fræðast um líf og störf Guðrúnar og skoða muni sem voru í hennar eigu eins og blússu, brjóstnælu, sauðskinnsskó og bréf hennar til útgefanda svo eitthvað sé nefnt.

Sýningin stendur frá 20. janúar – 4. mars 2018