Kjörstöðum fjölgar í Reykjavík

Stjórnsýsla

""

Borgarráð hefur samþykkt að fjölga kjörstöðum í borginni um fjóra fyrir næstkomandi forsetakosningar, sem fara fram 27. júní.

Nýir kjörstaðir eru í Breiðholtsskóla, Dalskóla, Vesturbæjarskóla og í Borgarbókasafninu í Kringlunni.

Breiðholtsskóli mun þjóna íbúum Bakka og Stekkja. Kjörhverfið afmarkast af Breiðholtsbraut til suðurs, Höfðabakka og Arnarbakka til austurs, Reykjanesbraut til vesturs og Elliðaá til norðurs. Kjósendur sem nú kjósa í Breiðholtsskóla kusu áður í Íþróttamiðstöðina í Austurbergi.

Dalskóli þjónar íbúum í Úlfarsárdal og við Reynisvatnsás. Það eru íbúar norðar við ánna og við Ásinn, auk Haukdælabrautar, Gissurargötu, Döllugötu og Ísleifsgötu eða allir sem búa norðan við Reynisvatnsveg. Kjósendur kusu áður í Ingunnarskóla

Vesturbæjarskóli mun þjóna íbúum gamla Vesturbæjarins. Svæðið afmarkast af Hringbraut til suðurs og Hofsvallagötu og Ægisgötu til austurs. Kjósendur kusu áður í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Fjórði og síðasti kjörstaðurinn sem bætist við er Borgarbókasafnið í Kringlunni. Þessi kjörstaður afmarkast af Kringlumýrarbraut til austurs, Miklubraut til norðurs og Háaleitisbraut og Fossvogsvegi til austurs. Þetta eru allar götur sem enda á –leiti, auk hverfis sunnan Bústaðavegar: Skógarvegur, Sléttuvegur og Lautarvegur. Kjósendur kusu áður í Hlíðaskóla.

Aðrir kjörstaðir verða þeir sömu og við seinustu borgarstjórnarkosningar.