Katrín og börn fengu fyrstu íbúð við Móaveg

Velferð Skipulagsmál

Björn Trausta­son fram­kvæmda­stjóri Bjargs af­henti Katrínu lyklana að íbúðinni sem íbúðarfélagið setur á leigu.

Það var Katrín Einarsdóttir, einstæð tveggja barna móðir, sem fékk afhenta lykla að fyrstu íbúðinni sem fer í útleigu hjá íbúðafélaginu Bjargi í gær. Hún hefur búið um nokkurt skeið í einu herbergi heima hjá foreldrum sínum ásamt börnum sínum, sem eru fjögurra og tíu ára gömul, og því kærkomið að komast í nýja íbúð.

Björn Trausta­son fram­kvæmda­stjóri Bjargs af­henti Katrínu lyklana að íbúðinni sem íbúðarfélagið setur á leigu. Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri ávarpaði gesti ásamt Drífu Snæ­dal, for­seta Alþýðusam­bands Íslands og Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB.

Þess­um íbúðum, ásamt þeim 563 sem eru í bygg­ingu til viðbót­ar á veg­um Bjargs íbúðarfélags er ætlað að tryggja tekju­lág­um fjöl­skyld­um á vinnu­markaði, fé­lags­mönn­um í ASÍ og BSRB, aðgengi að hag­kvæmu, ör­uggu og vönduðu íbúðar­hús­næði í lang­tíma­leigu. Miðað er við að greiðslu­byrði leigu fari ekki yfir 25% af heild­ar­tekj­um leigj­enda, að teknu til­liti til hús­næðis­bóta.

Áætlað er að af­henda leigj­end­um 141 íbúð til viðbót­ar í ár eft­ir því sem hús­næðið verður til­búið. Þær íbúðir eru við Móa­veg, í Asp­ar­skóg­um og í Urðarbrunni. Unnið er að hönn­un 490 íbúða til viðbót­ar í Bryggju­hverf­inu, Gelgju­tanga, og Skerjaf­irði í Reykja­vík, og í Hafnar­f­irði, Þor­láks­höfn, Sand­gerði og á Sel­fossi.

Mikil uppbygging framundan hjá borginni

Til stend­ur að halda áfram upp­bygg­ingu hús­næðis í sam­ræmi við þörf og fjár­magn. Sveit­ar­fé­lög vinna hús­næðisáætlan­ir til að meta þörf­ina og legg­ur Bjarg að sögn áherslu á að eiga í góðu sam­starfi við þau um frek­ari upp­bygg­ingu á kom­andi árum.