Jólastemning í Þórshöfn í Færeyjum

Jólatréð er fallega skreytt og sómir sér vel á Tinghúsvellinum í Þórshöfn

Kveikt var á ljósunum á jólatrénu, sem er gjöf frá Reykvíkingum til Þórshafnarbúa, á Tinghúsvellinum í Færeyjum á laugardaginn 26. nóvember.

Þetta er í tíunda sinn sem Reykvíkingar gefa Færeyingum tré að gjöf, en tréð var fellt í Heiðmörkinni á svæði Skógræktarfélags Reykjavíkur fyrr í þessum mánuði. Um er að ræða sitkagrenitré sem var plantað um 1980 og sá Eimskip í samvinnu við Smyril line um flutning trésins til Þórshafnar.

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, afhenti Þórshafnarbúum tréð við hátíðlega athöfn á Tinghúsvöllinum á laugardaginn og að því loknu þakkaði Heðin Mortensen, borgarstjóri, Reykvíkingum fyrir tréð.

Fjöldi fólks var samankominn til að taka þátt í hátíðahöldunum og var veður með ágætum í Þórshöfn á laugardaginn og jólatréð er fallega skreytt. Jólasveinar voru á ferli og buðu gestum og gangandi upp á konfekt og flutt voru jólalög.