Jólaköttur lýsir upp skammdegið

Mannlíf

Jólakötturinn á Lækjartorgi

Það var margt fólk á Lækjartorgi síðdegis í dag til þess að bjóða velkomin vel lýstan jólaköttinn.

Þetta er í annað sinn sem hann lýsir upp aðventuna í miðborginni. Kötturinn er engin smásmíði um 5 metrar á hæð og 6 metrar á breidd. Grýla og Leppalúði mættu á Lækjartorg ásamt jólakettinum en þau vilja meina að hann sé þeirra. Hjónin léku alls oddi og margir tóku myndir af sér með þeim.

Borgarstjóri kveikti ljósin með aðstoð barnanna og barnakórinn Graduale Futuri söng nokkur jólalög. Kötturinn er lýstur upp með 6500 led ljósum. Hönnun hans er samstarf Reykjavíkurborgar, MK-illumination í Austurríki og fyrirtækisins Garðlist.

Börnin voru mjög hrifin af upplýstum jólakettinum sem er vígalegur með rauðskotin augu og virðist fátt fara fram hjá honum. Jólakötturinn mun standa vaktina á Lækjartorgi fram yfir áramót.