Jólagleði á Austurvelli við tendrun á Oslóartrénu

Mannlíf Menning og listir

""

Það ríkti sannkölluð jólagleði á Austurvelli í dag þegar ljósin á Oslóartrénu voru tendruð að venju fyrsta sunnudag í aðventu.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri naut dyggrar aðstoðar norsk-íslensku systranna Önnu og Heklu Tómasdætra Albrigtsen við að kveikja á jólatrénu, enda hafa Norðmenn tekið þátt í þessari athöfn með Reykvíkingum í 67 ár.

Það er föst hefð hjá fjölmörgum fjölskyldum að mæta á tendrunina, enda eru jólin komin í Reykjavík þegar kveikt er á trénu á Austurvelli.  Svala Björgvins og Friðrik Ómar sáu um að koma öllum í jólaskap með hressilegum jólalögum, enda beit kuldinn dálítið í kinnar og tær og því veitti ekki af að fá alla til að dansa með.  Katla Margrét Þorgeirsdóttir hélt utan um dagskrána af myndarbrag, og Agnes Steina Óskarsdóttir og Guðrún Heiða Guðmundsdóttir sáu um að túlka alla dagskrána á táknmáli.

Oslóartréð á Austurvelli kemur nú í þriðja sinn úr Norðmannalundi í Heiðmörk þar sem Norðmenn á Íslandi hafa í áratugi stundað skógækt.   Tengslin við Osló eru þó enn sterk við þetta sérstaka tilefni, og sem tákn um vináttu borganna færði Peter N. Myhre borgarfulltrúi Oslóarborgar borgarstjóra bókapakka að gjöf með fjórum Doktor Proktor bókum eftir norska rithöfundinn Jo Nesbö sem afhentar verða á næstu dögum til allra grunnskóla Reykjavíkur.

Dagur Hjartarson skáld flutti kvæði sitt um jólasveininn Stekkjarstaur, en hann prýðir einmitt óróann í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra á Oslóartrénu í ár.  Dögg Guðmundsdóttir iðnhönnuður á heiðurinn á jólaóróanum að þessu sinni, en allur ágóði af sölu óróans rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa prýtt Oslóartréð, jólatré Reykvíkinga og verið eina skrautið á trénu auk jólaljósanna.

Jólasveinarnir Kertasníkir og Bjúgnakrækir tóku forskot á sæluna og mættu snemma til byggða til að skemmta börnum og fullorðnum á Austurvelli í fallega vetrarveðrinu í dag.