Jólaævintýri í Ljósadalnum

Ljósadalurinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum er ljósum prýddur

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er kominn í jólabúning og dýrin í garðinum komin í jólaskap.

Jólaljós hafa verið sett upp um allan Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og ævintýri líkast að ganga þar um. Upplagt er fyrir fjölskyldur að rölta um og dást að ljósadýrðinni og komast í jólaskap. Útigrillin verða opin og er tilvalið að grilla pylsur eða sykurpúða þegar veður er gott og taka með sér heitt kakó, bara muna að klæða sig vel.

Ljósadalurinn verður opinn dagana 27. nóvember til jóla á fimmtudögum til sunnudags frá 17 til 20. Gestum er boðið í hringekjuna frá kl. 17 til 20, í hestvagnaferðir frá kl. 17 til 19, jólatónlist mun óma og eldar loga víða um garð. Opið verður í útihúsunum frá kl. 10 til lokunar.

Í ár verða Matarvagnar í garðinum frá kl. 17 þar sem gestir og gangandi geta keypt sér eitthvað gott að borða. Matarvagnarnir bjóða upp á fjölbreytta rétti fyrir stóra sem smáa.

Strax á leiðinni niður að Fjölskyldugarðinum tekur ljósadýrðin á móti gestum því stígurinn frá bílastæðunum niður að hliði garðsins er ljósum prýddur. Kannski verður jólakötturinn á vegi gesta en hann verður kominn á stjá og fylgist vel með umferðinni um garðinn. Aðventan í Ljósadalnum býður upp á eitthvað fyrir alla fjölskylduna og í fallegu umhverfi geta gestir átt skemmtilegan dag og komist í jólaskap í ljósadýrðinni.

Ljósadalurinn er nú ævintýri líkastur og fólk kemst í sannkallað jólaskap við það að ganga um garðinn á aðventunni, slappa af og njóta ljósa og tónlistar, segir Ingi Thor Jónsson verkefnastjóri viðburða.

Við hvetjum öll til að taka myndir af stemningunni og birta á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #ljosadalur22.

Facebooksíða Fjölskyldu- og húsdýragarðsins

Á síðu jólaborgarinnar má sjá nánari upplýsingar um jólaviðburði á vegum Reykjavíkurborgar.