Jákvæð rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar 3,4 milljarðar 2018 | Reykjavíkurborg

Jákvæð rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar 3,4 milljarðar 2018

þriðjudagur, 7. nóvember 2017

Sókn í skóla- og velferðarmálum – mikil uppbygging innviða og lækkun fasteignagjalda samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018  og fimm ára áætlun 2018- 2022.

  • Reykjavíkurtjörn og Iðnó séð frá Ráðhúsi Reykjavíkur. Mynd: Reykjavíkurborg
    Reykjavíkurtjörn og Iðnó séð frá Ráðhúsi Reykjavíkur. Mynd: Reykjavíkurborg

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 og fimm ára áætlun 2018-2022 var lagt fram í borgarstjórn í dag.  Árið 2018 er áætluð rekstrarniðurstaða borgarsjóðs jákvæð um 3,4 milljarða. Jafnvægi er í rekstri borgarinnar, bæði hjá fyrirtækjum hennar og í rekstri A-hluta.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir áætlunina gera ráð fyrir sókn á öllum sviðum en einkum sé það þrennt sem einkenni áætlunina fyrir árið 2018.

„Í fyrsta lagi erum við að sækja verulega fram í skólamálum og velferðarmálum. Í öðru lagi þá ráðumst við í fjárfestingar fyrir 18 milljarða á næsta ári, með sérstaka áherslu á götur, stíga og íþróttamannvirki. Í þriðja lagi höldum við áfram sókn okkar í húsnæðismálum en alls fara 69 milljarðar til húsnæðismála á næstu fimm árum í Reykjavík. Við þetta má bæta að við erum um leið að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um 10% eða úr 0,2% í 0,18% ásamt sérstökum afsláttum fyrir aldraða og öryrkja,” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Uppbygging innviða

Uppbygging innviða mun styðja við íbúðauppbyggingu með gerð gatna, torga, almenningssvæða og hjólastíga en einnig annarra samfélagslegra innviða. Stærstu verkefnin eru í Úlfarsárdal þar sem skóli, íþróttahús og sundlaug rísa. Í Breiðholti verður einnig byggt íþróttahús, knatthús og fimleikahús á næstu árum. Félagsbústaðir ráðgera umtalsverða fjölgun félagslegra íbúða í eignasafni sínu á tímabilinu. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til Borgarlínu, alls 4,7 milljörðum á næstu fimm árum.

Samstæðan jákvæð um 17,2 milljarða

Rekstrarniðurstaða fyrir samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2018 er áætluð um 17,2 milljarðar. Góðan afgang má einkum rekja til A-hluta, Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústaða hf. vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna félagsins. Þá er gert ráð fyrir batnandi afkomu á áætlunartímabilinu 2018- 2022.

Frumvarp að fjárhagsáætlun 2018 - 2022

Greinargerð með fjárhagsáætlun